140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[12:28]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hugtakið skattpíning er ekki hugtak úr hagfræðinni, alls ekki. Ég held að það sé bara málnotkun að fólk noti það um þunga skattbyrði og tali um skattpíningu. Þetta er tilfinningahlaðið hugtak og hefur ekkert með einhverjar hagfræðilegar útlistanir að gera eins og við erum að ræða hérna.

En það er algerlega ljóst að þung skattbyrði dregur úr fjárfestingu. Við þurfum ekki að deila um það. Það er mín staðfasta trú miðað við alla þá þekkingu sem ég hef, sem þarf kannski ekki að vera mikil á þessum málum, að þung skattbyrði, og rannsóknir sýna það, dregur úr vinnuframboði. Það er bara einfaldlega þannig. Það er alveg sama hvað þingmaðurinn þrætir við mig, rannsóknir sýna þetta. (LMós: Sýndu mér það.) Hv. þingmaður kallar fram í úr sal: Sýndu mér það. Ég skal sýna þér það. Ég skal sýna þér fullt af rannsóknum sem sýna það.

En hvað varðar þetta nýyrði sem ég hef aldrei heyrt áður, þetta er í fyrsta skipti sem ég heyri það í þessum sal, þ.e. hvalrekahagnaður, ég hef ekki hugmynd um hvað það er (Gripið fram í.) þannig að ég verð að biðja þingmanninn að útskýra það fyrir mér í betra tómi á eftir og ég verð að svara henni eftir það, en þetta hugtak hef ég ekki heyrt áður. (Gripið fram í.)