140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

staðan í aðildarferlinu við ESB.

[14:12]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Afstaða hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur löngum legið fyrir. Það kemur líka fram í ræðu hv. þingmanns að hún er honum sammála um það að allar líkur séu á því að aðildarsamningur við Evrópusambandið verði felldur. Við hvað eru menn þá hræddir? Hvers vegna þá ekki að leyfa þessu máli að ganga fram og fara að vilja tveggja þriðju hluta þjóðarinnar sem ítrekað hafa sýnt þann vilja sinn í skoðanakönnunum (Gripið fram í: Rangt.) að fá að greiða atkvæði um samninginn. [Kliður í þingsal.] Það hefur margoft komið fram, jafnvel þótt það uppnám sé í Evrópu núna sem hv. þingmaður kallar bruna. (Gripið fram í: Rangt.) Ég vil, frú forseti, sömuleiðis segja að ég tel að það sé röng ályktun sem hv. þingmaður dregur að einmitt út af þeirri stöðu sem er í Evrópu að þá eigum við með einhverjum hætti að draga úr okkar vinnu við ferlið. Það er einmitt núna, þegar Evrópa hefur fulla þörf á því að fá það pólitíska heilbrigðisvottorð (Gripið fram í.) sem felst í því að ríki vilja sækja um aðild að sambandinu, sem best er að semja. Samningatæknilega ætti frekar að gefa í en að draga úr hraðanum. (Gripið fram í.) Ég vil hins vegar að það komi algjörlega skýrt fram að það hefur aldrei verið af hálfu Samfylkingarinnar, eða mín sem utanríkisráðherra, rætt um flýtimeðferð. Aldrei. Það orð var fundið upp í leiðurum Morgunblaðsins og hv. þingmaður getur sótt það í þau föðurhús eins og hún hefur gert. Ég hafna því sömuleiðis alfarið sem hv. þingmaður segir, að það hafi verið lítið um upplýsingagjöf af minni hálfu gagnvart þinginu. Ég hef alltaf verið boðinn og búinn til þess að koma til fundar við þingið og ræða þessi mál, ekki bara ég heldur líka þeir sem sinna þessum samningum fyrir hönd íslenska ríkisins. Þannig hafa menn mætt og ég líka margsinnis í utanríkismálanefnd og þegar fagnefndir þingsins hafa eftir því óskað hefur mitt fólk komið þangað og staða mála hefur verið skýrð fyrir mönnum. (Gripið fram í.)

Þegar hv. þingmaður talar um yfirgang ESB verð ég að segja að það hefur komið mér á óvart í þessum samningaviðræðum hversu lausnamiðað ESB er. Ég gæti talið mörg dæmi. Eitt vil ég sérstaklega nefna. Í utanríkismálanefnd kom upp sú hugmynd að fara aðra leið en aðrar þjóðir, þ.e. að aðlaga ekki reglur, lög og stofnanir íslenska ríkisins Evrópusambandinu fyrr en eftir þjóðaratkvæðagreiðslu þegar fyrir lægi jáyrði. Á þetta hefur ESB fallist núna eins og kemur glögglega fram í þeim rýniskýrslum sem hafa komið fram um byggðamálin og sömuleiðis um landbúnaðarmálin. Það hefur ekkert annað land náð þessu fram. Í þessu felst ákveðinn sigur, mundu sumir segja. Ég ætla ekki að kalla það svo, en í öllu falli er það gott dæmi um það að Evrópusambandið hefur skilning á þörfum okkar. Ég vísa sömuleiðis til þess að í bréfi sem pólska forustan sendi með umræddum rýniskýrslum var beinlínis lagt fyrir samningamenn Evrópusambandsins að taka tillit til tiltekinnar sérstöðu sem þar kemur fram.

Hv. þingmaður spyr um það hvernig staða samninganna sé núna. Eins og hv. þingmaður veit leið eitt ár frá því að tillaga um umsókn var samþykkt þangað til við urðum umsóknarríki, annað ár þangað til við höfðum hafið samninga. Það er hraðferð, það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, en það er einungis vegna þess að við erum í EES og við erum í Schengen. Við vorum búin að taka upp 70% af regluverkinu.

Á fyrstu ríkjaráðstefnunni nú í sumar voru opnaðir fjórir kaflar, tveimur var lokið. Það er búið að opna tvo til viðbótar og ljúka sömuleiðis. Ég hef lýst því yfir að ég telji að hægt sé, og væri æskilegt, að á þessu ári, undir pólsku forustunni, yrðu 12–14 kaflar samtals opnaðir og afgangurinn áður en danska forustan víkur, en hún tekur við núna um áramótin. Ég held, eins og hv. þingmenn heyrðu sjálfir þegar þeir áttu kost á því að spyrja stækkunarstjóra Evrópusambandsins, að hann telji það meira en mögulegt.

Ég geri mér sömuleiðis vonir um að þegar júní sleppir á næsta ári verðum við búin að semja um og ganga frá og loka 20 köflum af þeim 33 sem við þurfum að semja um. Gangurinn er því góður að því er varðar samskipti okkar við Evrópusambandið. Sömuleiðis tel ég sem utanríkisráðherra að ég hafi átt gott samstarf við hið háa Alþingi og vísa því sérstaklega til föðurhúsanna að það hafi staðið á upplýsingagjöf. Hvert einasta gagn sem þetta varðar er opið fyrir augum allra á vef ráðuneytisins.