140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

staðan í aðildarferlinu við ESB.

[14:35]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Yfirskrift þessarar umræðu er Staðan í aðildarferlinu við ESB, um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál einkum og sér í lagi. Hér koma menn í þessari umræðu, margir hverjir, og stinga hausnum í steininn eins og frægt orðatiltæki er í þessum sal, (Gripið fram í.) fara með dómsdagsspár eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir um meint endalok Evrópuríkja sem væru uppbrunnin nánast, talar um að við vitum ekki hvort við ætlum að sækja um gamla eða nýja sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Við ætlum ekki að sækja um neina sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, hvorki gamla né nýja. Hér er verið að ræða um að sækja um aðild að Evrópusambandinu og viðræður þar um, m.a. um sjávarútvegsmál, hvernig við gætum komið þeim málum fyrir í viðræðunum sjálfum og hvort okkur líkar síðan sú niðurstaða sem út úr þeim viðræðum fæst eða ekki.

Á nýafstöðnum landsfundi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs var allmikil umræða um Evrópusambandsmálin og þar var ítrekuð sú afstaða okkar að við teljum að hagsmunum okkar sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan. Þar vorum við sem stöndum í forustu fyrir flokkinn brýnd til þess að halda okkar málflutningi og röksemdum vel á lofti. Það tökum við að sjálfsögðu til okkar. Þar kom hins vegar engin tillaga fram um að draga umsóknina til baka eða hætta yfirstandandi viðræðum þannig að það kom ekki til atkvæðagreiðslu um slíka tillögu eins og á landsfundum ýmissa annarra flokka.

Ég vil aðeins segja um það umboð sem ríkisstjórnin hefur að það er talað um að ríkisstjórnin hafi skilyrt umboð. Um það er fjallað á bls. 14 í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar þar sem segir einmitt að við í meiri hlutanum teljum nægilega leiðsögn sem felst í þeim meginhagsmunum sem er lýst í nefndarálitinu en að sérstakt skilyrði eða skilyrt umboð umfram það muni ekki skila neinum árangri, hins vegar (Forseti hringir.) verði ekki vikið frá þeim meginhagsmunum án undanfarinnar umræðu á vettvangi Alþingis. Þess vegna gerðum við tillögu um (Forseti hringir.) breytingu á orðalagi þingsályktunartillögunnar sem var samþykkt.

Ég tel sem sagt, virðulegi forseti, að staðan í þessum viðræðum sé í raun og veru ágæt, (Forseti hringir.) sé góð en við þurfum alltaf að vera vakandi gagnvart því sem þar er á ferðinni og taka sífellt til umræðu (Forseti hringir.) þau álitamál sem upp koma.