140. löggjafarþing — 19. fundur,  9. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur fyrir þessa spurningu.

Jú, ég hef rætt þessi mál á Alþingi við hæstv. fjármálaráðherra, Steingrím J. Sigfússon. Þar benti hann á skýrslu frá árinu 2004 og sagði að svo skyldi böl bæta að í þeirri skýrslu hefði komið fram að um 12% af heildarskatttekjum ríkis og sveitarfélaga þá hafi verið svikin undan skatti. Við það geri ég athugasemd hér og nú vegna þess að í þeirri skýrslu kemur fram að ekki voru gerðar rannsóknir á skattsvikum í skýrslu þeirri því að eins og segir í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Ekki liggja ekki fyrir reikningslegar úttektir sambærilegar við úttektir sem gerðar voru hérlendis á árunum 1986 og 1993. Var því ákveðið að styðjast við úttektir sem gerðar höfðu verið erlendis og einkum litið til athugana í Svíþjóð og í Danmörku. Niðurstöður nefndarinnar eru byggðar á ályktunum hennar um líklegar breytingar á skattsvikum hér á landi með hliðsjón af hinum erlendu úttektum og reynslu síðustu ára í skatteftirliti og skattrannsóknum.“

Ég er að benda á það, frú forseti, að þau rök sem hæstv. fjármálaráðherra notaði í síðustu viku varðandi þá skýrslu sem nýkomin er út um skattsvik eru marklaus að þessu leyti því að ekki voru gerðar íslenskar rannsóknir sem byggt er á í skýrslunni.

Varðandi þá spurningu sem lögð var fyrir mig vil ég benda á að skattsvik og skattflótti er ekki það sama. Ég tek undir það að háir skattar auka mjög skattsvik og ekki síður, eins og hv. þingmaður kom inn á, flókið skattkerfi. Nú er búið að flækja skattkerfið svo hér á landi síðan þessi ríkisstjórn tók við að um og yfir 100 lagabreytingar hafa verið gerðar á skattumhverfinu.

Einnig kom fram í skýrslunni sem skilað var í síðustu viku að áberandi væri hversu mikið þekkingarleysi væri á markmiðum og innihaldi laga og reglugerða um tekjuskráningu og virðisaukaskatt sem giltu nú hér á landi, því að þegar sífellt er verið að breyta skattumhverfinu vita jafnvel atvinnurekendur ekki eftir hvaða reglum þeir eiga að fara. Þess vegna eru skattsvikin svo auðveld eins og kom fram í skýrslunni.