140. löggjafarþing — 19. fundur,  9. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Frú forseti. Mig langar til að vekja athygli á því að mannúð og mannkærleikur eru mjög hagkvæmt fyrirbæri, meira að segja hagfræðilega. Eins og fram hefur komið í máli hv. þingmanna sem hér hafa talað áður kostar 21 milljón á ári að reka Vin, þetta hús við Hverfisgötu. Það hús telja um 200 manns vera sitt annað heimili, koma þangað flesta daga, spjalla saman, tefla, lesa, njóta samvista. Þessi þjónusta kostar miðað við að viðskiptamannahópurinn sé 200 — starfsmenn segja að viðskiptamannahópurinn sé raun og veru 350 manns en segjum að hann sé 200 og þá kostar þessi starfsemi 300 kall á mann á dag. Ef þessi starfsemi væri ekki til staðar má benda á að innlögn á geðdeild kostar 70 þús. kr. á dag. Rauði krossinn borgar það ekki, Reykjavíkurborg borgar það ekki, ríkið borgar það. Ég vona því að ríkið komi myndarlega að því forvarnastarfi, mannkærleiksstarfi og mannúðarstarfi sem þarna er unnið, og spari um leið peninga og sýni svolítið fjármálavit því að íslenska ríkið má alveg spara nokkrar krónur mín vegna.