140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

ummæli um „óhreint fé“ í bankakerfinu.

[10:53]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Þau tilvitnuðu orð prófessorsins sem hv. þingmaður gerir að umtalsefni eru svo sem nokkuð torræð og ekki auðvelt að átta sig á að fullu til hvers þar er vísað. Við búum nú við umhverfi gjaldeyrishafta. Við vitum að bankar fjármagna sig í dag nær alfarið með innlánum þannig að það hlýtur að takmarka möguleikana til að það geti verið mikið „óhreint fé“ í umferð á Íslandi í dag.

Ég vænti þess að sjálfsögðu að Seðlabankinn upplýsi um það ef hann telur ástæðu til að ætla að það sé „óhreint fé“ í íslensku fjármálakerfi og það er auðvitað starfsskylda Seðlabankans. Ég geng út frá því að Seðlabankinn viti af grunsemdum sem einhverjir seðlabankastjórar kunna að hafa og upplýsi þá um þær. Ég vænti þess að það sé gert og þar sem það hefur ekki verið gert geri ég ráð fyrir að það sé ekki endilega efnisleg innstæða fyrir ummælunum. En það er Seðlabankans að svara fyrir það.