140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

beiðni um sérstaka umræðu um sparisjóði.

[11:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það kemur mér á óvart að hæstv. fjármálaráðherra skuli ekki vera undirbúinn fyrir það að ræða málefni sparisjóðanna. Ég hélt að fjármálaráðherra hefði alveg einstaklega mikla þekkingu á því sem þar er búið að gerast og gert er.

Það kemur mér líka á óvart að hæstv. ráðherra hafi fengið skilaboð síðdegis í gær um að ósk hefði komið fram um þessa umræðu því að það lá fyrir á þriðjudaginn að við vildum ræða það mál við hæstv. ráðherra í dag.

Ég hlýt hins vegar að gera athugasemdir við að ráðherra skuli ekki grípa tækifærið þegar hann eyðir öllum deginum með þingmönnum til að ræða þetta mál sem er væntanlega eitt af stærstu málunum sem ráðherrann glímir við í ráðuneyti sínu. Við það geri ég alvarlegar athugasemdir og ég fæ ekki betur séð en að ráðherrann sé að reyna koma sér undan því að ræða þetta mál við hv. þm. Eygló Harðardóttur sem sótt hefur það mjög fast að ræða það við hæstv. ráðherra. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að taka þá umræðu á eftir. Ég veit að forseti er tilbúinn að liðka fyrir í dagskrá þingsins til að umræðan geti farið fram. Það er vel hægt að gera það áður (Forseti hringir.) en við hefjum þá umræðu sem er næst á dagskrá eða þá inn á milli.