140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[12:18]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er kannski ekki alveg rétt að þessi heimild hafi verið veitt, þó að meiri hluti fjárlaganefndar hafi skrifað þau orð á blað að hann hafi lagt það til við þingheim.

Ég vil að öðru leyti þakka fyrir svarið. Það er rétt að það er mjög mikilvægt að Alþingi sinni eftirlitshlutverki sínu í tengslum við sitt fjárveitingavald. Það er þeim mun mikilvægara í þessu máli að hæstv. innanríkisráðherra hefur skrifað bréf sem hann afhenti okkur í þessari háu nefnd á opnum fundi um daginn, til Vaðlaheiðarganga hf., þar sem hann lýsir stuðningi við verkefni þeirra að því gefnu að því fylgi enginn kostnaður fyrir ríkissjóð eins og skilyrt var í nefndaráliti sem hv. þingmaður las hér upp, nefndaráliti samgöngunefndar um stofnun þessa fyrirtækis á sínum tíma.

Í bréfinu er tekið fram að Vaðlaheiðargöng hf. verði sjálf að sýna fram á þetta og þar með er hæstv. innanríkisráðherra í raun og veru að segja: Héðan í frá er þetta verkefni annars vegar Alþingis og hins vegar Vaðlaheiðarganga hf. og Alþingi verður, forseti, að standa sig í því máli að taka á þessu verkefni fulla ábyrgð.