140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[14:46]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan; önnur eins ræða hefur sennilega ekki verið flutt með jafnmiklum sleggjudómum og útúrsnúningum og hv. þingmaður gerði og bætti um betur í þessu andsvari í svari við spurningu minni.

Spurningin er einföld: Telur hv. þingmaður sig ekki þurfa að biðja þessar stofnanir afsökunar á þeim sleggjudómum sem hann hefur fellt og röngum fullyrðingum um framúrkeyrslu við þau verk sem hér er verið að ræða um vegna þess sem Vegagerðin segir í gögnum sínum núna?

Virðulegi forseti. Ég sé það á heimasíðu Alþingis að hv. þingmaður er með MA-próf í hagfræði frá New York University 1985. Þess vegna er ég meira undrandi á því að hann setji svona fullyrðingar fram. Hér er verið að tala um aðra kostnaðaráætlun, frá því í janúar 2006. Við höfum fengið hagfræðikenningu um það að stofnanir landsins skuli á þessum tíma hafa gert ráð fyrir gengishruni krónunnar og því efnahagshruni sem hér varð. Það er alveg með ólíkindum að þetta skuli sett fram og er mjög ósanngjarnt, ég ítreka það, ósanngjarnt hjá hv. þingmanni að setja þetta svona fram gagnvart þeim stofnunum, verkfræðingum og verkfræðistofum út um landið og í þessum bæ sem hafa unnið þessar áætlanir eftir bestu getu og bestu þekkingu og sem standast jafn vel og hér kemur fram, Bolungarvíkurgöng á núlli eða undir áætlun í þeirri efnahagskreppu sem varð. Mér finnst þetta meiri háttar afrek hjá þeim sem gera þessar áætlanir og vil þakka þeim fyrir það.

En ég ítreka spurningu mína til hv. þingmanns og mun koma betur inn á ýmislegt í ræðu minni á eftir um þá sleggjudóma og útúrsnúninga sem hv. þm. Þór Saari tekur sér í munn og notar sem alfa og omega í árásum sínum á framkvæmdir á landsbyggðinni sem hér er verið að tala um.