140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[16:28]
Horfa

Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég byrja á því eins og fleiri nefndarmenn í fjárlaganefnd hafa gert og þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, formanni fjárlaganefndar og öðrum nefndarmönnum það góða samstarf sem verið hefur í nefndinni. Þetta er áhugaverð og skemmtileg vinna. Ég vil að fram komi að eftir 10 daga setu í fjárlaganefnd upplifi ég þetta sem mjög skemmtilega og áhugaverða vinnu og mér finnst fólk vera þar mjög samstiga að flestu leyti.

Minni hluti fjárlaganefndar leggur fram álit sitt og ég tek undir það og geri athugasemd við hvað málið var afgreitt með miklum flýti úr nefndinni. Ég átta mig vel á því að tíminn var knappur en svo knappur tími gerir líka manneskju eins og mér, sem aðeins hefur setið í 10 daga á þingi, erfiðara fyrir að mörgu leyti og væri betra ef hægt væri að hafa lengri tíma til að klára málin.

Venjulega gegni ég stöðu sveitarstjóra lítils sveitarfélags úti á landi og mig langar að flétta inn í mál mitt samanburð á því verklagi sem við höfum í sveitarstjórnunum og ég er vön dagsdaglega, ef svo má að orði komast, og þann ramma sem sveitarstjórnir setja sér t.d. við fjárhagsáætlunargerð og þann ramma sem ný sveitarstjórnarlög sem samþykkt voru frá Alþingi setja sveitarstjórnarmönnum í störfum þeirra.

Samkvæmt beiðni fjárlaganefndar vann Ríkisendurskoðun umsögn sem nokkrir þingmenn hafa rætt. Þar fór Ríkisendurskoðun yfir fjárlögin 2012, fjáraukalög 2011 og lokafjárlög 2010. Í umsögninni koma fram ábendingar og undir þær er tekið í minni hluta fjárlaganefndar. Þar er tekið sérstaklega undir ábendingu varðandi samanburð við nágrannaríkin þar sem aukning útgjalda samkvæmt fjáraukalögum nemur um 1% frá fjárlögum og því sé enn nokkuð í land varðandi það að ná þeim aga í ríkisfjármálum sem þar hefur tíðkast. Undir það tók hv. formaður í ræðu sinni þegar hún mælti fyrir nefndarálitinu.

Varðandi ábendingar Ríkisendurskoðunar sem minni hlutinn tekur undir og dregnar eru sérstaklega fram í nefndarálitinu ber fyrst að nefna framsetninguna á rekstraryfirlitinu þar sem minni hlutinn er sammála athugasemdum Ríkisendurskoðunar sem gerðar voru við þann þátt.

Þá eru nefndir nokkrir gjaldaliðir. Þar telur minni hlutinn ástæðu til að færa inn nokkra gjaldaliði sem ekki koma fram í yfirlitinu frá fjármálaráðuneytinu en koma fram í yfirliti meiri hluta nefndarinnar. Þessi tafla kemur fram í áliti minni hluta nefndarinnar á bls. 2. Ástæðan fyrir því að taflan er sett þannig upp er að okkur sem undir álitið rita fannst óhjákvæmilegt að gjaldaliðirnir færu þarna inn til að draga fram heildarjöfnuð sem skekkist þá eða verður lakari sem því nemur.

Ríkisendurskoðun gerir athugasemd við meðhöndlun t.d. skattafrádráttar þar sem við tökum undir ábendingu um að færa beri skattafrádrátt vegna kostnaðar fyrirtækja við nýsköpunarverkefni og gjaldalið í stað þess að draga hann frá tekjum þó svo að framsetningin breyti ekki afkomu ríkissjóðs. En ég hef lært það í þessum efnum að það er mjög mikilvægt að gætt sé samræmis við slík tilvik því að ég gat ekki skilið annað á fundi fjárlaganefndar með Ríkisendurskoðun að ekki gætti alltaf fulls samræmis í því að þegar um verkefni væri að ræða sem kölluðu bæði á tekjur og gjöld, væru tekjurnar ýmist færðar að fullu og síðan gjöldin og sums staðar virtist vera um eins konar nettóleið að ræða. Ég held að það sé mjög mikilvægt að gætt sé samræmis hvað það varðar af því að það breytir ekki heildarniðurstöðunni.

Ef ég tala almennt um útgjaldahliðina er dregið fram í umsögn Ríkisendurskoðunar, sem mér finnst áhugavert og ég tek undir að þurfi að skoða, að talsverð útgjaldaaukning er lögð til í frumvarpinu og er þá vert og mikilvægt að halda því til haga. Samt sem áður er gert ráð fyrir ófyrirséðum lið upp á 4,8 milljarða kr. í fjárlögunum 2011. Í því ljósi er þar um talsverða útgjaldaaukningu að ræða.

Jafnframt kemur fram í athugasemdum með frumvarpinu að almennt er ekki óskað fjárheimilda vegna nýrra verkefna eða aukins umfangs. Þrátt fyrir það eru tillögur í frumvarpinu sem nema samtals 4 milljörðum kr. Þær tillögur sem eru að baki þeirri fjárhæð eru raktar í nefndarálitinu, bæði hjá meiri hluta og minni hluta.

Eins og ég kom inn á áðan er þetta tíundi dagurinn minn í fjárlaganefnd og borið hefur á því, sem ég þekki svo sem úr sveitarstjórnargeiranum, að allir senda inn erindi til fjárlaganefndar. Í ljósi niðurskurðar síðustu ára ímynda ég mér að það sé meira álag varðandi fjáraukalögin 2011 og fjárlögin 2012 í þeim efnum. Því hefur verið fylgt eftir með heimsóknum og því sem brennur á fólki.

Þá verður mér aftur hugsað til þess vettvangs sem ég starfa alla jafnan við, sveitarstjórnar, varðandi áherslur og forgangsröðun. Mig langar að koma með smáhvatningu til nefndarinnar og þingheims alls og í ljósi umræðunnar í dag að við þurfum að gæta að forgangsröðun þar sem við setjum fram áherslur og hugsa þá um landið allt. Ég tek jafnframt undir það sem fram hefur komið í dag þegar talað er um áherslur varðandi höfuðborg og landsbyggðina. Við hljótum að þurfa að forgangsraða, eftir ég má kannski nota það orð, vegna mikilvægis þess sem í húfi er. Þá er mér efst í huga heilbrigðiskerfið.

Þá var dálítið í vinnu nefndarinnar og þeim gögnum sem fyrir okkur voru lögð sem kom mér á óvart og það var heimildarákvæði nokkurt. Það kom mér mjög spánskt fyrir sjónir, svo ekki sé sterkara til orða tekið, sérstaklega þegar ég áttaði mig á því hvernig þau virka í raun. Ég tók sérstaklega eftir þessu þegar við fengum gögn varðandi fjárlögin 2012 að þar var gert ráð fyrir útgjaldaheimild, ákveðinni fastri fjárhæð og í barnaskap mínum taldi ég að tekjur sem þar kæmu inn og síðan útgjöld væru nettótala og innan þess yrði að halda sig. En ég hef komist að því að það er dálítið annað sem þar um ræðir, þetta virðist að miklu leyti vera opin heimild til fjármálaráðherra. Þarna eru taldir upp liðir sem ráðherra óskar eftir, og ég hef svo sem fullan skilning á því að þarna er margt sem þarf að vera inni sem þarf jafnvel að bregðast við á árinu, en ég tek jafnframt undir það sem sagt hefur verið að það er mjög mikilvægt að því fylgi áætlun um fjárhæðir sem fram koma. Það sem mér er efst í huga er kannski að breyta þarf verklaginu. Ef ég fer aftur yfir í sveitarstjórnargeirann höfum við þann háttinn á þegar við gerum fjárhagsáætlun okkar að þegar verkefni koma sem kalla á skuldbindingar umfram þær innkaupareglur sem við höfum sett okkur er það tekið fyrir jafnóðum og vísað í endurskoðun. Ég hafði hugsað að það sama ætti að geta átt við um fjáraukalög, þau yrðu í raun búin til jafnóðum yfir árið.

Fyrr í dag talaði hv. þm. Illugi Gunnarsson um varúðarsjónarmið varðandi færslu á tekjum, gjöldum, skuldum og eignum í bókhaldi, að það hefði alltaf verið talin góð regla í reikningsskilum. Undirstrikaði hv. þingmaður mikilvægi þess að ríkisreikningur sýndi rétta mynd af fjármálum.

Þá langar mig í því samhengi sérstaklega að nefna Sparisjóð Keflavíkur. Fjárlaganefnd fékk í hendurnar gögn frá fjármálaráðuneytinu og liggur fyrir mat um að eigið fé sparisjóðsfé sé neikvætt um 11,2 milljarða. Mér finnst vægast sagt skrýtið að það sé ekki fært af því að það er matið þótt endanlega eigi eftir að ganga frá samkomulagi. Það gæti orðið meira og jafnvel minna, en samt sem áður er það mat ráðuneytisins og ætti með þessi varúðarsjónarmið að leiðarljósi að færa þetta.

Það er álit minni hlutans að heilmikið vanti inn í fjáraukalögin, bæði hvað varðar útgjöld og skuldbindingar, og er farið greinilega yfir það í nefndarálitinu. Ég ákvað, ekki síst í ljósi umræðunnar í dag, að ég ætla að sleppa samgöngumálum. Ég verð að segja að ég hélt stundum að við værum að ræða samgönguáætlun en ekki fjáraukalögin. Ég þakka þeim þingmönnum sem minntust á Vestfjarðaveginn, ef við tölum aftur um forgangsröðun, en ég ætla ekki að fara út í samgöngumálin undir þessum lið.

Það er mat mitt að færa skuli allar skuldbindingar og ég set stórt spurningarmerki við það sem ég kalla „bankastarfsemi ríkisins“ þar sem ríkið lánar fé, ekki síst þegar það kallar á auknar lántökur af hálfu þess sjálfs.

Ég nefndi áðan sveitarfélögin, fjárhagsáætlanir og vinnulag og ég vil að ítreka það. Ég tel að það sé mjög gott vinnulag sem við höfum varðandi endurskoðun á fjárhagsáætlunum og annað og ný sveitarstjórnarlög sem Alþingi setti sveitarfélögunum setja þeim góðan ramma. Sveitarfélögin fögnuðu því að slíkt fyrirkomulag yrði tekið upp. Ég tel mjög mikilvægt fyrir okkur sem förum með ábyrgð opinberra fjármuna að settar séu um það skýrar reglur. Allt frá haustinu 2008, þegar sveitarfélögin fóru í mjög markvissar aðgerðir, hefði ég viljað sjá slíkt verklag hjá ríkinu, en þeirri breytingu ber að fagna. Jafnframt segir í Ríkisendurskoðun varðandi aukið fé vegna fjáraukalaga að það hafi dregist saman, en betur má ef duga skal.

Þá langar mig aðeins að koma inn á eftirlitið með framkvæmd fjárlaga. Það er hlutverk fjárlaganefndar og Alþingis og ég tel mjög mikilvægt að það virki í reynd. Ég heyri á öðrum þingmönnum að það er vilji fyrir því að taka upp slíkt verklag. Við þurfum að virkja hlutverk nefndarinnar betur þannig að fjárlögin og fjáraukalögin verði unnin jafnt og þétt yfir árið. Hv. þm. Pétur H. Blöndal fór vel yfir hlutverk og þýðingu fjárlaga fyrir þetta land. Það þarf að halda áfram á þeirri braut og eins og ég fór yfir í upphafi og margir hv. þingmenn eru mér sammála um er það verðugt markmið að frumvarp til fjáraukalaga geri ráð fyrir að hækkun útgjalda verði að hámarki 1%.

Þá ítreka ég jafnframt nauðsyn þess að fram komi allar þær skuldbindingar sem ríkið hefur tekist á hendur. Þær á að færa í ríkisbókhaldið.

Virðulegi forseti. Að lokum langar mig að endurtaka þakkir mínar til formanns og nefndarmanna og hvatningu, þar sem þingsetu minni mun ljúka eftir daginn á morgun, til að fjárlögin virki sem það áætlunar- og stjórntæki sem þeim er ætlað að vera.