140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[15:39]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í þessu fjáraukalagafrumvarpi kemur fram að heildarjöfnuður fyrir árið 2011 er nú neikvæður um 59,1 milljarð kr. Eins og áður hefur komið fram er þetta verri útkoma sem nemur 13 milljörðum kr. Það eru töluverðar líkur á að útgjöld hækki enn frekar og ég gagnrýni agaleysi við fjárlagavinnuna og bendi á þær umræður sem urðu hér áðan, ef við ætlum að lifa hér við sjálfstæðan gjaldmiðil þarf að koma á betri aga við fjármálastjórnun þessa lands.

Ríkisstjórninni tekst heldur ekki að koma hagvexti af stað. Það sýna þær útgönguspár sem hafa verið lagðar fram. Það örlar þó á einu jákvæðu, þ.e. Vaðlaheiðargöng. Þingflokkur Framsóknarflokksins vísar ábyrgðinni á frumvarpinu í heild til ríkisstjórnarinnar og mun sitja hjá nema við þann (Forseti hringir.) lið.