140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[15:55]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Það væri óskandi að Alþingi gæti byggt ákvarðanir sínar á sannindum og rökhyggju, öfugt við það sem hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson gerði áðan þegar hann byggði á óskhyggju og kjördæmapoti. Það er útilokað að þessi framkvæmd gangi upp miðað við þær forsendur sem hafa verið lagðar fyrir þingið, það er einfaldlega útilokað mál. Hér eru meira að segja Vinstri grænir farnir að styðja það að veita milljarða til einkaframkvæmdar. Þetta er einkaframkvæmd í nafni og boði Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Það liggur líka fyrir í vikudagskrá þingsins að það á að klára þetta mál á miðvikudaginn, ekki á morgun heldur hinn, án þess að gerð verði úttekt af hálfu Ríkisendurskoðunar á fjármögnuninni á þessu sem ein af þingnefndum Alþingis er þó búin að biðja um. Þetta eru alveg hörmuleg vinnubrögð og það er dapurlegt að það Alþingi sem hér situr skuli ekkert hafa lært af hruninu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)