140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

jöfnun kostnaðar við húshitun.

216. mál
[17:27]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir þessa umræðu. Við erum að ræða grundvallarmál — við erum að ræða um það að fólk búi við sem líkust lífsskilyrði hér á landi. Eins og ég fór yfir áðan er kostnaður fjölskyldna á þessum köldu svæðum mun hærri vegna matarkaupa, skólamála og eldsneytis vegna þess að eðli málsins samkvæmt þegar menn búa fjarri helstu þéttbýlisstöðum landsins fara heilmiklir fjármunir í það að koma sér á milli staða, að við tölum nú ekki um þennan þrefalda mun, sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson nefndi, fyrir að kynda húsið sitt. Við skulum tala um hlutina eins og þeir eru.

Það eru tvö skattstig í landinu. Fólkið á köldu svæðunum borgar — ég vil bara kalla það skatta — miklu hærri skatta, þarf að verja miklu meiri fjármunum til grundvallarmannréttinda, vil ég meina, sem er að hita húsið sitt hér á landi.

Ég fagna því að við skulum ná hér saman þverpólitískt um það að þessu verði að breyta. Hvernig sem menn gera það, hvort sem það er hrein og bein jöfnun þannig að stóra heildin, 90% heimila, borgi mögulega eitthvað hærra verð til að jafna þennan mun, hlutföllin eru um það bil 90% á móti 10%, eða hvort menn leita annarra leiða eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson nefndi áðan.

Aðalatriðið er að við stöndum ekki enn einu sinni á næsta ári og ræðum þessi mál. Þessi starfshópur verður að klára vinnu sína. Í framhaldi verðum við hér á Alþingi að hafa kjark til að taka ákvarðanir sem mögulega verða ekkert pólitískt vinsælar, en eru réttlætismál. Hér er um mikið óréttlæti að ræða sem við verðum að leiðrétta hið fyrsta. Ég skora á hæstv. ráðherra að reka á eftir því ágæta fólki sem er í hópnum sem er að leita lausna á þessu vandamáli (Forseti hringir.) þannig að við getum vonandi á nýju ári komið fram með tillögur til þess að jafna lífskjörin í landinu.