140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

sjálfstæði Háskólans á Akureyri.

150. mál
[17:53]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu sem er afar þörf um Háskólann á Akureyri og sjálfstæði hans. Við getum endalaust talað um sjálfstæði versus samvinnu og mér finnst sjálfsagt að sú umræða sé tekin en ég hef reyndar þá bjargföstu trú að Háskólinn á Akureyri eigi að vera sjálfstæð stofnun vegna þeirrar sérstöðu sem hann hefur sem mjög mikilvæg stofnun í menntun fólks í hinum dreifðu byggðum almennt. Þar hafa þeir tekið sérstaka forustu með fjarnám því að þeir eru í raun og veru eini háskólinn sem virkilega kann það og ætti að geta kennt öllum öðrum skólum það. Tilvist Háskólans á Akureyri hefur í raun aukið menntunarstig fólks á landsbyggðinni verulega og er örugglega hægt að mæla það.

Ég held að það sé hægt að gera mjög mikið í því að efla samstarfið og þar getur Háskólinn á Akureyri svo sannarlega lagt sitt af mörkum á (Forseti hringir.) sinn sjálfstæða hátt.