140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

staðfesting á aðalskipulagi Skaftárhrepps.

139. mál
[18:43]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrirspurnina og umræðuna um þetta mikilvæga málefni. Ég vil áður en ég fer í smáatriði málsins árétta það að ég hef miklar mætur á Skaftárhreppi, hef átt góð samskipti við sveitarstjórnina þar og ég þarf ekki milligöngu hv. þingmanns til að halda þeim góðu samskiptum gangandi áfram, enda finnst mér hann frekar leggja til málanna tortryggni, sem er ekki það sem þarf í samskiptum ríkis og sveitarfélaga.

Varðandi aðalskipulagið er því til að svara að í júní 2011 barst ráðuneytinu tillaga Skipulagsstofnunar um að staðfesta aðalskipulag Skaftárhrepps 2010–2022 að undanskildum þeim hluta skipulagsins sem varðaði legu háspennulína frá Hólmsárvirkjun að Búlandsvirkjun og frá henni til norðurs að Sigöldulínu 4 sem bætt hafði verið við skipulagstillöguna að loknum athugasemdafresti. Sú breyting kallar að mati Skipulagsstofnunar á endurauglýsingu þar sem fram kemur að ef sveitarstjórn ákveður við síðari umræðu að breyta tillögu í aðalskipulagi í grundvallaratriðum skuli breytt tillaga auglýst á nýjan leik.

Í júní óskaði ráðuneytið þess vegna eftir því við Skipulagsstofnun að stofnunin rökstyddi hvort hún teldi að um form- eða efnisgalla væri að ræða á skipulagstillögunni og óskaði ráðuneytið eftir tillögu að afgreiðslu þess hluta skipulagsins er varðaði háspennulínurnar. Í júlí sl. barst ráðuneytinu bréf Skipulagsstofnunar þar sem fram kemur að um formgalla sé að ræða á skipulagstillögunni og í ágúst sl. lagði Skipulagsstofnun það til við ráðuneytið að staðfestingu aðalskipulags sveitarfélagsins yrði frestað að hluta fyrir þann hluta skipulagsins sem inniheldur fyrrnefndar línur.

Í ágúst sl. leitaði ráðuneytið umsagnar sveitarfélagsins á tillögu Skipulagsstofnunar og barst umsögn í september þar sem fram kom að sveitarfélagið féllist á tillögu Skipulagsstofnunar.

Í október á þessu ári, þ.e. fyrir örfáum vikum, tilkynnti ráðuneytið sveitarfélaginu Skaftárhreppi þá niðurstöðu sína að fresta beri staðfestingu skipulags á þeim hluta aðalskipulags sveitarfélagsins sem varðar legu háspennulínunnar sem þegar er nefnd og var sveitarfélaginu þá jafnframt tilkynnt um að aðalskipulagið verði staðfest þegar nýir uppdrættir hafi borist ráðuneytinu sem gerir grein fyrir frestun aðalskipulags að hluta.

Í tilteknu ákvæði í skipulagsreglugerð kemur fram að auðkenna skuli þau svæði á skipulagsuppdrætti þar sem skipulagi er frestað og greina frá ástæðum þess í greinargerð. Síðan gerðist það 9. nóvember, sem sagt í síðustu viku, að ráðuneytinu bárust nýir uppdrættir frá sveitarfélaginu og ráðuneytið stefnir á að það aðalskipulag verði staðfest á allra næstu dögum og verður mér ljúft og skylt að upplýsa þingmanninn um það samdægurs þegar það gerist.

Ég vil til viðbótar taka undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram í máli hv. þingmanns að því er varðar sveitarstjórnina í Skaftárhreppi og þá samstillingu sem einkennir það starf þar sem það sveitarfélag hefur verið að vinna við sérlega krefjandi aðstæður, bæði að því er varðar aldurssamsetningu og samsetningu sveitarfélagsins að öðru leyti og ekki síður að búa við þær ógnir náttúrunnar sem sveitarfélagið hefur þurft að glíma við til viðbótar við önnur dagleg viðfangsefni. Það er í raun til fyrirmyndar að undir öllum þessum flóknu kringumstæðum skuli sveitarfélagið að auki, þ.e. sveitarstjórnarmenn, hafa stillt saman strengi um það að sætta þessi ólíku sjónarmið vegna þess að það leit ekki vel út á síðasta kjörtímabili að það tækist. Það var mér mikið fagnaðarefni að það tókst, að sveitarfélagið næði að stilla saman strengi sem litu á tímabili út fyrir að geta orðið mjög vandsamstilltir. Mér varð það að orði þegar ég hitti sveitarstjórnarmenn þar síðast eða þar áður að þeir og þær sem skipa sveitarstjórnina í Skaftárhreppi hefðu örugglega einhverju að miðla til okkar á Alþingi.