140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

staðfesting á aðalskipulagi Skaftárhrepps.

139. mál
[18:48]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda þessa fyrirspurn og ráðherranum svörin.

Ég vil þó mótmæla því sem kom fram í svari hennar að ekki sé nauðsyn á milligöngu. Ef við horfum á þær tafir sem orðið hafa á svörum frá ráðherra til sveitarstjórnarmanna í Skaftárhreppi, sem hafa allir verið af vilja gerðir að vinna með ráðuneytinu, verð ég að segja að það sýnir bara að virkilega hefur verið þörf á þessari milligöngu. Og það var strax í ágúst sem ég hafði samband við umhverfisráðuneytið og spurðist fyrir um aðalskipulag Skaftárhrepps og þau svör komu strax þá að þetta snerist um þessar háspennulínur.

Ég verð því að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig stendur á því að þetta hefur tafist svo að menn hafa ekki getað komið pósti hraðar á milli? Þó að Skaftárhreppur sé kannski aðeins fyrir utan höfuðborgarsvæðið (Forseti hringir.) eru þeir enn þá með virkar póstsamgöngur. Það er ein ástæðan fyrir því að ég hef lagt fram frumvarp (Forseti hringir.) um breytingar á skipulagslögum sem eiga að tryggja að ráðherra geti ekki tafið samþykkt aðalskipulags (Forseti hringir.) með þeim hætti sem hér hefur verið gert.