140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

Málefni innflytjenda.

[14:31]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka líka hv. þm. Amal Tamimi fyrir að standa hér fyrir mjög mikilvægri umræðu um málefni innflytjenda.

Ég er nokkuð stolt af því sem Framsóknarflokkurinn hefur gert í þessum málaflokki og vil minna á framlag Páls Péturssonar sem stýrði félagsmálaráðuneytinu á sínum tíma. Þegar hann kom í ráðuneytið fór virkilega að ganga í flóttamannamálum. Ég vil líka benda á mjög einbeitta stefnu Framsóknarflokksins í þessum málum þar sem við undirstrikum á fjölmörgum stöðum í grundvallarstefnuskrá okkar mikilvægi þess að bera virðingu fyrir öllum, alveg óháð kynþætti t.d., og að það eigi að viðurkenna mannréttindi allra og sýna umburðarlyndi. Ég ætla ekki að lesa upp úr stefnuskránni en þetta er mjög greinilegt í henni.

Um tíma voru hér á landi nokkuð margir innflytjendur, um 10% þjóðarinnar voru innflytjendur rétt fyrir hrun. Það er frekar hátt hlutfall og hærra en annars staðar á Norðurlöndunum í dag t.d. Allt gekk prýðilega vel þannig að við höfum verið heppin að því leytinu að við höfum ekki séð sömu vandamál og menn sjá í nágrannaríkjum okkar. Ef maður leikur sér að tölum má segja að ef þetta 10% hlutfall útlendinga á Íslandi hefði endurspeglast á þingi hefðu um sex þingmenn af erlendum uppruna verið á þingi, en mér skilst að hv. þm. Amal Tamimi sé annar innflytjandinn sem hér hefur tekið sæti fyrir utan Poul Nikolov þannig að þetta hlutfall endurspeglar alls ekki samsetninguna sem var í samfélaginu og líklega ekki þá samsetningu sem er í dag.

Varðandi það sem hv. þm. Amal Tamimi sagði um móðurmálskennslu og íslenska tungu vil ég taka undir það. Það er alveg gríðarlega mikilvægt að bæði fullorðnir og börn læri íslensku. Ég vil undirstrika að börn læri íslenska tungu þannig að þau geti staðið jafnfætis öðrum börnum í skóla. Það er gríðarlega mikilvægt til framtíðar litið.