140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

þingsköp Alþingis.

27. mál
[17:59]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég er einn flutningsmanna þessa máls og fyrir því eru sérstakar ástæður. Ég er mjög sátt við málið eins og það er en mér finnst mjög nauðsynlegt, verði það að lögum, að samhliða þessari breytingu á þingsköpunum verði einhver neyðarhemill. Ég ítreka að það þarf að vera hægt að grípa í neyðarhemil ef ríkjandi stjórnvöld eru að fara að gera eitthvað arfavitlaust.

Það sem mér hugnast best er að minni hluti þingmanna, 1/3 þingmanna, geti krafist þess að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla. Ef við mátum það á umdeild mál sem verið hafa í þinginu, mál sem leitt hafa til einhvers konar málþófs, og byrjum á Icesave-málinu, held ég að þar hafi það virkað sem slíkur neyðarhemill sem varð svo raunin og við unnum með málþófinu. Við töfðum tímann á meðan undirskriftum var safnað og forseti Íslands ákvað að skrifa ekki undir lögin.

Það hefði getað stytt ferlið að þingmenn hefðu strax sagt: Þetta mál sendum við til þjóðarinnar, 1/3 þingmanna, við hefðum staðið við það og það hefði verið gert. Góð kynning hefði farið fram og þjóðin hefði væntanlega fellt samninginn rétt eins og hún gerði.

Ef við mátum það hins vegar við mál sem rædd voru á septemberþinginu held ég að það hefði aldrei verið hægt að nota þann neyðarhemil vegna þess að það var ekki raunverulegur ágreiningur þar. Þjóðin hefði bara sagt: Hvers vegna fáum við þetta mál í þjóðaratkvæðagreiðslu? Það er eitthvert innanhússmál í þinginu. Enda skildi þjóðin ekkert hvað um var að vera hérna, af hverju hér voru fundir tímunum saman, dögum og vikum saman um eitthvað sem eiginlega enginn gat sett sig inn í.

Áður en ég varð þingmaður vann ég einkum við tvennt, ég var annars vegar ritstjóri og þá vann ég náttúrlega við að stytta mál annarra, og hins vegar vann ég við að skrifa stutta og hnitmiðaða auglýsingar- og kynningartexta. Þegar ég kom hingað inn og varð vitni að þessu málflæði, og þá er ég ekki að tala um málþóf heldur venjulegar þingræður, vissi ég varla hvort ég ætti að hlæja eða gráta. Ég gat ekki ímyndað mér hvernig hægt væri að tala í 20 mínútur eða jafnvel 40 mínútur um eitthvað sem var afskaplega einfalt, þó án þess að bæta það. Svo fór ég að stúdera ræðutæknina hjá mörgum og sá að sumir, og nú er ég ekki að tala um alla, ákveðnir þingmenn hafa komið sér upp tækni við að segja allt þrisvar. Fyrst reifa þeir málið í stuttu máli og svo fara þeir dýpra ofan í hvert atriði. Svo þegar um það bil fimm mínútur eru eftir af ræðutímanum taka þeir sig til og súmmera það upp og fara þriðja hringinn í einu máli. Það fannst mér alveg aðdáunarvert en hins vegar fullkomin tímasóun.

Eftir septemberþingið í haust verð ég að segja að mér leið gífurlega illa. Mér leið svo illa yfir því hvernig þingmenn, þjóðkjörnir fulltrúar, komu fram við þjóð sína að mér fannst af fullkominni vanvirðingu. Stundum leið mér — það er sjálfhverft að segja þetta — eins og ég væri eina edrú manneskjan í partíinu. Ég veit að mörgum öðrum þingmönnum leið líka mjög illa.

Ég kom á þing sem nýr þingmaður eftir síðustu kosningar og ég held að það hafi verið ásetningur allra að vanda sig. Við vildum gera vel. Við buðum okkur fram vegna þess að okkur fannst allt vera í vondum málum og við vildum virkilega vinna þjóðinni gagn og reyna að gera eins vel og við gætum. Við komum inn á allt það foringjaræði hér sem fjallað var um í ræðum á undan mér þar sem nýju þingmennirnir gerðu eins og þeir sem fyrir voru og fullkomnuðu jafnvel glæpinn, ef svo mætti að orði komast.

Ég styð þetta mál, enda flutningsmaður að því, en ítreka það sem stendur í greinargerðinni, að verði það samþykkt, sem ég vona að verði, þarf að vera einhver neyðarhemill fyrir þingið til að grípa í ef ríkjandi stjórnvöld eru galin. Ég held að það dugi ekki sem lagt er til í frumvarpi stjórnlagaráðs að málskotsréttur sé hjá þjóðinni og hjá forsetanum vegna þess að hér eru oft mál sem eru gífurlega flókin og tæknileg. Þingmenn vinna við að setja sig inn í þau og almenningur kveikir ekki á þeim, hann skilur ekki um hvað er að ræða. Eitt slíkt mál sem borið hefur verið fram nokkrum sinnum er frumvarp um nýjan innstæðutryggingarsjóð sem örfáir þingmenn hafa reynt að gera ýmislegt til að breyta en það ratar aldrei í fjölmiðla. Við teljum það stórhættulegt og eiginlega fullkomlega galið en það ratar aldrei eða mjög sjaldan í fjölmiðla og almenningur skilur það ekki. Ég sæi ekki fyrir mér að 10% kosningarbærra manna mundu skrifa undir undirskriftasöfnun um hvernig slíkum málum ætti að vera fyrir komið.