140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:47]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil gjarnan eiga orðastað við hv. formann velferðarnefndar, Álfheiði Ingadóttur. Eftir hrun höfum við Íslendingar þurft að hagræða mjög mikið í heilbrigðisþjónustunni. Unnt var að gera það af því að búið var að spýta verulega inn í þjónustuna fyrir hrun. En nú er hins vegar svo komið að sterkar vísbendingar eru um að komið sé að þolmörkum í þessum málum og ekki sé unnt að skera mikið meira niður án þess að leggja ákveðna þjónustu niður.

Ég hef verulegar áhyggjur af sjúkrahúsþjónustunni um allt land, bæði af stofnunum á landsbyggðinni og af Landspítalanum. Ég vil nefna að búið er að skera niður um 20% á Landspítalanum frá því fyrir hrun og hann er eitt viðkvæmasta sjúkrahúsið okkar.

Ég vil gjarnan spyrja um það sem kom fram á fundi í gær, hjá SÍBS í Iðnó, að kostnaðurinn er að færast til í heilbrigðiskerfinu — vegna tugprósentna niðurskurðar í sjúkrahúsþjónustunni og í þjónustu heilsugæslunnar væri kostnaðurinn líklega að færast til og þá yfir í meiri sérfræðiþjónustu. Formaður velferðarnefndar, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, tók undir þetta og sagðist vera með gögn þessu til staðfestingar. Mér finnst þetta mjög alvarleg tíðindi ef rétt er og reyndar hefur maður haft það á tilfinningunni að svo gæti farið að við skærum svo mikið niður að kostnaðurinn færðist til milli þjónustuþátta.

Ég vil því spyrja hv. formann velferðarnefndar út í þessi gögn eða út í þessar vísbendingar, hvort rétt sé að niðurskurðurinn sé orðinn það mikill í heilbrigðisþjónustunni, sérstaklega á sjúkrahúsum og einnig í heilsugæslunni, að kostnaðurinn sé að færast til og aukast í öðrum þjónustuþáttum eins og í sérfræðiþjónustunni. Ef þetta er rétt þarf algerlega að taka stöðuna upp á nýtt (Forseti hringir.) og endurskoða bæði niðurskurðaráform og endurskoða hvað er auðvelt að auka kostnaðinn í sérfræðiþjónustunni.