140. löggjafarþing — 25. fundur,  17. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[10:08]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég sat hjá við atkvæðagreiðslu um heimild til fjármálaráðherra til að afla lánsfjár á vegum ríkissjóðs til að fjármagna gerð Vaðlaheiðarganga. Þessi heimild er skýrt skilyrt og háð því að framkvæmdin standi alfarið undir sér með vegagjöldum. Áhöld eru um hvort svo sé. Þessi framkvæmd er tekin út úr samgönguáætlun og sett fram fyrir allar aðrar stórframkvæmdir.

Ég fagna yfirlýsingu hæstv. fjármálaráðherra en ég sit aftur hjá núna til að undirstrika að ég tel ekki tímabært að veita, hvað þá að nýta, þessa heimild sé hún á annað borð veitt. Málið verður að fá ítarlega skoðun hjá óháðum aðila eins og umhverfis- og samgöngunefnd hefur gert ráð fyrir og ítrekað og þær niðurstöður verður svo að taka til gagnrýnnar athugunar.

Harkalega er verið að skera niður heilbrigðis- og velferðarþjónustu, ekki síst úti á landi, og ýmsar brýnar samgönguúrbætur bíða. Ábyrgð stjórnvalda er mikil og forgangsröð verkefna úr takmörkuðum sjóðum ríkissjóðs verður að vera hafin yfir vafa.