140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

hækkun fargjalda Herjólfs.

234. mál
[16:52]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda Eygló Harðardóttur fyrir að vekja máls á hækkun fargjalda Herjólfs sem hæstv. ráðherra útskýrði fyrir sitt leyti ástæðuna fyrir.

Mig langar til að benda hæstv. ráðherra á að það er óásættanlegt fyrir íbúa Vestmannaeyja sem búa nú um stundir við gríðarlegt óöryggi í samgöngum milli lands og Eyja. Eins og hæstv. ráðherra útskýrði eru öll óþægindin, allar tafirnar og vesenið í kringum Landeyjahöfn þar að auki látið bitna á íbúunum í formi þess að þeir taka á sig þessar kostnaðarhækkanir.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að fara aðeins yfir þetta, alla vega athuga hvort hægt sé að hliðra til fyrir Eyjamenn, (Forseti hringir.) við hin siglum ekki reglulega þangað eins og þeir sem þarna búa, þannig að íbúarnir fái (Forseti hringir.) einhvers konar ívilnun. Þetta getur ekki gengið svona lengur.