140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

stofnun þjóðhagsstofnunar.

46. mál
[17:33]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er nauðsynlegt að rifja upp í nokkrum orðum forsögu þessa máls frekar en hv. fyrirspyrjandi gerði og ég tel eðlilegt að slík fyrirspurn komi fram í ljósi forsögunnar.

Í skýrslu þingmannanefndar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kom fram tillaga um að stofnuð yrði sjálfstæð ríkisstofnun sem starfaði á vegum Alþingis og hefði það hlutverk að meta og gefa út spár fyrir efnahagslífið á sama hátt og Þjóðhagsstofnun gerði á sínum tíma. Ítrekað hefur verið rætt um hugsanlega útfærslu á þessari tillögu, bæði á vettvangi skrifstofu Alþingis og Stjórnarráðsins og mismunandi hugmyndir hafa verið reifaðar í óformlegum viðræðum aðila.

Í þessu samhengi ber að líta til þess að ýmislegt hefur breyst í stjórnsýslu efnahagsmála undanfarin missiri og er rétt að fara yfir hver staða mála er á því sviði. Við breytingu á lögum um Hagstofu Íslands árið 2009 var sett á laggirnar sjálfstæð rannsóknareining sem aðskilin er hagskýrslustarfseminni. Þessari rannsóknareiningu er falið að fylgjast með afkomu þjóðarbúsins og semja þjóðhagsspár sem birta skal reglulega. Þar starfa þrír starfsmenn og birtir Hagstofan spár tvisvar á ári. Þá hefur spágerð styst hjá Seðlabankanum og gefur bankinn út þjóðhagsspár reglulega eða fjórum sinnum á ári.

Efnahagsmálin eru nú undir sérstöku ráðuneyti í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu en þar fer meðal annars fram almenn hagstjórn og mat á þróun og horfum í efnahagsmálum. Á skrifstofu efnahagsmála í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu eru nú sjö starfsmenn en meðan efnahagsmálin voru í forsætisráðuneytinu var þar lengi einn sérfræðingur á því sviði en mest tveir í kjölfar efnahagshrunsins.

Um þessar mundir er í fyrsta sinn verið að gefa út sérstaka efnahagsáætlun á vegum efnahags- og viðskiptaráðuneytisins auk þess sem umfangsmikil skipulags- og stefnumótunarvinna fer þar fram sem tekur á innra skipulagi og efnahags- og viðskiptaráðuneytið er nú með á lokastigi. Í mínum huga er ljóst að Stjórnarráðinu er nauðsynlegt að hafa innan borðs einingu af þessu tagi og á miklu veltur að vel sé að verki staðið við mat á efnahagsmálum og horfum. Það sem skiptir máli er þrennt, það er trúverðugleiki, fagleg vinnubrögð og kostnaður. Meðal annars hefur verið rætt um hvort koma eigi á fót einingu sérfræðinga sem komi að gerð þjóðhagsspár á vegum Alþingis og að sú eining starfi hugsanlega í tengslum við fjárlaganefnd Alþingis.

Við höfum hins vegar ekki efni á því í okkar litlu og fámennu stjórnsýslu, hvort sem er á vegum Alþingis eða Stjórnarráðsins, að koma á fót mörgum einingum sérfræðinga á þessu sviði. Mikilvægara er að mínu mati að sú eining sem sett verður á fót verði faglega sterk og öflug þannig að ekki leiki vafi á því að hún njóti fulls trausts og trúverðugleika. Það er að mínu mati alls ekki gefið að trúverðugleiki verði meiri ef slík þjóðhagsstofnun verði á vegum Alþingis en Hagstofu Íslands.

Hæstv. forseti. Við getum ekki leyft okkur þann lúxus að horfa fram hjá kostnaði í þessu efni frekar en öðru. Reynslan er ekki góð af litlum stofnunum eða einingum sem kosta mikið og eru faglega veikar.

Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir að halda þessu máli á lofti og hvetja okkur til að ljúka umfjöllun og undirbúningi þessa máls. Ég hef óskað eftir því að sérfræðingar innan Stjórnarráðsins fari nú sameiginlega yfir þetta mál með fulltrúum Alþingis og meti hvar eining af þessu tagi eigi best heima í framtíðinni hér á landi þannig að við getum sem fyrst fengið niðurstöðu í þetta mál.