140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

áhrif rafbókarinnar á skóla og menningu.

125. mál
[18:32]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Já, ég held að það liggi fyrir. Ég þakka hv. þingmönnum sem hafa talað. Það er brýnt verkefni að móta þá stefnu sem ég nefndi áðan um hvernig við sjáum fyrir okkur rafbókavæðingu á námsgögnum og ekki síður hvernig við getum tryggt opið aðgengi að menntaefni sem hefur verið styrkt með opinberu fé. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við skoðum þessi mál í samhengi.

Síðan held ég að aukin stafræn væðing á texta geti hjálpað til við lestur. Ég held að lestrarvenjur yngri kynslóða séu að breytast með þeim hætti að það hjálpi bara til að hafa textann aðgengilegri á fleiri miðlum en hefur verið. Það er kannski stóra viðfangsefnið hvernig við tryggjum lestrarkunnáttu og almennt læsi í samfélaginu hjá báðum kynjum. Ég held að það sé stóra verkefnið og við getum að sjálfsögðu hjálpað til við útbreiðslu og aðgengi með tækninni en innihaldið er það sem skiptir máli í þessum efnum.