140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

fjölgun framhaldsskóla.

227. mál
[18:33]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ásókn í framhaldsskóla hefur aldrei verið jafnmikil og nú og það er mikið fagnaðarefni. Það er mikið fagnaðarefni að þótt við séum ekki með skólaskyldu í framhaldsskólum fara um 96%, minnir mig að talan sé í kringum núna, grunnskólanema í framhaldsskóla. Við höfum, sem betur fer með samþykki allra flokka, lögleitt fræðsluskyldu til 18 ára aldurs.

Á hverju hausti sprettur upp umræðan um hvert börnin geta farið. Ég og hæstv. ráðherra erum ekki sammála um þá aðferð sem ráðherra beitti sér fyrir og breytti reglunum um hverfaskiptingu skóla. Ég held að það hafi verið rangt að fara þá leið, og ég tel að það sé farsælla að landið sé allt eitt framhaldsskólasvæði þannig að stúlka fyrir vestan sé jafnsett dreng í 101 til að sækja til dæmis um MR eða aðra skóla á höfuðborgarsvæðinu eins og Fjölbraut og Kvennó. Ég veit að það liggur fyrir skýrsla í ráðuneytinu, ætli hún sé ekki orðin fjögurra eða fimm ára gömul, um mat á því hvar ætti helst að koma niður næstu framhaldsskólum. Annars vegar var miðað við mannfjölda og hins vegar einfaldlega byggðasjónarmið. Ég hef alltaf tekið undir byggðasjónarmiðið og studdi meðal annars framhaldsskólann á Snæfellsnesi og núna framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð með tilliti til þess að við þurfum líka að halda börnunum okkar í byggð og hafa einingarnar nokkuð rekstrarvænar.

Síðan er það fjöldinn á suðvesturhorninu. Við erum búin að koma upp skólanum í Mosfellsbæ sem er að byggjast upp núna en okkur vantar fleiri skóla. Að mínu mati vantar okkur fleiri bekkjarskóla því að einstaklingar á suðvesturhorninu hafa mjög lítið val um bekkjarskóla og þeir eru takmarkaðir við Reykjavíkurhornið, þ.e. við sem búum í Kraganum — börnin okkar hafa einfaldlega ekki sömu möguleika til að sækja um bekkjarskóla og þeir sem búa í Reykjavík. Mér finnst það miður því að börnin okkar eru mismunandi að gerð. Þannig er það.

Í ráðuneytinu liggur fyrir skýrsla og mig minnir að í henni hafi þörfin verið kortlögð þannig að mikil þörf væri í Hafnarfirði en ekki síst í austanverðum Kópavogi sem gæti þá líka sinnt norðurhluta Reykjavíkurborgar þar sem Norðlingaholtið er, fyrst að ráðherra er líka kominn inn á þessa svæðaskiptingu framhaldsskólanna.

Ég spyr ráðherra hvort hún hafi einhver áform um að fjölga skólum á suðvesturhorninu, að líta núna til suðvesturhornsins varðandi framhaldsskóla og framhaldsskólapláss. Þar er þörfin brýnust, hér þurfum við á fjölbreytni að halda og það er ekki hægt að takmarka þá fjölbreytni við ákveðinn hluta Reykjavíkurborgar. Mér finnst það ekki ganga. Ég spyr hæstv. ráðherra, líka út af því að (Forseti hringir.) greinilega er ekki verið að vinna eftir því að fjölga þriggja ára stúdentsbrautum og ekki síst vegna þess að þörfin fyrir að fjölga framhaldsskólum er einkum á suðvesturhorninu: (Forseti hringir.) Tekur ráðherra ekki undir með mér að koma þurfi upp skóla, til að mynda í Kópavogi, til að svara þörfinni bæði í Reykjavík og Kópavogi?