140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

HPV-bólusetning.

235. mál
[19:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Alþingi samþykkti í fyrra þingsályktunartillögu Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur sem ég var einnig meðflutningsmaður að um að hefja undirbúning að bólusetningu allra 12 ára stúlkna gegn HPV-smiti og leghálskrabbameini. Landlæknisembættið hóf svo bólusetninguna í haust með bóluefninu Cervarix.

HPV eða human papilloma vírusinn er mjög algeng veira, einkum meðal ungs fólks, og smitast mjög auðveldlega við kynmök. Talið er að um 80% þeirra sem stunda kynlíf smitist af veirunni einhvern tímann á ævinni en veiran hefur margar undirtegundir sem geta valdið kynfærasjúkdómum. Í flestum tilfellum hverfur veiran úr líkamanum af sjálfu sér en sumar tegundir hennar geta valdið viðvarandi forstigsbreytingum sem geta orðið að vörtum eða krabbameini, m.a. í leghálsi og endaþarmi. Rannsóknir benda einnig til að HPV orsaki krabbamein í hálsi.

Öflugt leitarstarf hefur skilað miklum árangri, sérstaklega í baráttunni gegn leghálskrabbameini. Gögn frá Bandaríkjunum staðfesta þetta líka, en benda jafnframt á að krabbamein í endaþarmi hafi þó aukist sem og krabbamein í höfði og hálsi sem rekja má að hluta til HPV-smits. Gildir það bæði um karla og konur.

Nýlega mælti því ráðgjafahópur smitsjúkadómamiðstöðvar Bandaríkjanna með því að einnig yrði hafin bólusetning á drengjum á aldrinum 11–12 ára og að hefja mætti bólusetningar við 9 ára aldur. Hópurinn mælti einnig með því að drengir og karlar á aldrinum 13–21 árs yrðu bólusettir.

Því spyr ég hæstv. ráðherra um hver sé afstaða hans til að hefja HPV-bólusetningu drengja.

Mjög brýnt er að hefja bólusetningu áður en einstaklingar byrja að stunda kynlíf til að tryggja árangurinn af bólusetningunni. HPV-bólusetning í Bandaríkjunum hjá stúlkum hefur ekki náð þeirri útbreiðslu sem vonast var eftir. Hluti af skýringunni er talin vera tregða foreldra til að láta bólusetja dætur sínar gegn kynsjúkdómi og það sé einhvers konar viðurkenning eða hvatning til þess að þær fari að stunda kynlíf. Einnig hefur umræða verið um val á bóluefni og virkni þess gagnvart ólíkum HPV-tegundum.

Hér á landi var valið að hefja bólusetningu með Cervarix sem er talið vera með betri ónæmisvaka, en einnig er á markaðnum bóluefnið Gardasil sem virkar einnig gegn vörtum.

Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvernig hefur undirbúningur og framkvæmd HPV-bólusetningar allra 12 ára stúlkna gengið hér á landi?

Ein lausn sem hefur verið bent á er að hefja bólusetningu fyrr þannig að hugartengslin séu minni við væntanlega kynlífshegðun. Því spyr ég hæstv. ráðherra hver sé afstaða hans til þess að hefja HPV-bólusetningu við yngri aldur en 12 ára og yrði virknin þá sambærileg.