140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[14:17]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Með samþykkt þessarar sögulegu þingsályktunartillögu tekur Ísland sér stöðu með þeim 127 ríkjum sem hafa á undanförnum 23 árum viðurkennt Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki. Það var á þessum degi, 29. nóvember, 1947 sem allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun sem gerði ráð fyrir stofnun ríkja bæði gyðinga og araba í Palestínu, gerði ráð fyrir því jafnvægi sem virðir sjálfsákvörðunarrétt þjóða hvaða nafni sem þær nefnast. Það var hárrétt ákvörðun á þeim tíma og það leið ekki nema hálft ár þar til Ísraelsríki var stofnað. Palestínuríki var ekki stofnað fyrr en 40 árum síðar og hefur enn ekki hlotið sömu viðurkenningu alþjóðasamfélagsins og Ísraelsríki.

Nú loksins þegar í fyrsta sinn er hrein vinstri stjórn í þessu landi stígum við Íslendingar skref sem hefði átt að stíga fyrir mörgum áratugum. Það er mikið fagnaðarefni og ég er stoltur af því að vera jafnaðarmaður og ég er stoltur af því að vera stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar í dag. Til hamingju, Amal Tamimi. Til hamingju, Palestínumenn.