140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:02]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Herra forseti. Við erum í 2. umr. fjárlaga, þeirra fjárlaga [Kliður í þingsal.] sem við gagnrýndum í 1. umr. — Gæti ég fengið hljóð í salinn, herra forseti? Það er mikið um pískur og hvísl hér.

(Forseti (SIJ): Forseti óskar þess að þingmenn gefi ræðumanni hljóð.)

Frá upphafi höfum við talið nálgun ríkisstjórnarinnar og fjármálaráðherra við þann skuldavanda ríkisins sem við er að glíma eftir hrunið vera í meginatriðum ranga. Hún mætti gjarnan vera með öðrum hætti og horfum við þá til þess að skuldir hins opinbera og sérstaklega ríkisins eru það miklar að þær verða ekki greiddar niður með þeim aðferðum og samkvæmt þeirri áætlun sem hefur verið lagt upp með án þess að valda varanlegum skaða á innviðum samfélagsins, heilbrigðiskerfinu, velferðarkerfinu og menntakerfinu. [Kliður í þingsal.] Sú umræða sem er í gangi um þetta fjárlagafrumvarp er einfaldlega staðfesting á því.

Sjálfur er ég áheyrnarfulltrúi í fjárlaganefnd. Ég á þar ekki fast sæti og hef því ekki getað sótt alla þá fundi sem nefndin hefur haldið. En ég sé á öllu og því sem ég heyri í umræðunni að fjárlaganefnd hefur komist ágætlega frá verki sínu og verkstjórnin og verklagið hefur verið ágætt. Það er gríðarlega mikið starf að koma fjárlögum í gegnum þingið. Það hefur náðst mikilvægur áfangi á þeirri leið með því að koma út öllum þessum safnliðum eða flestöllum undir faglega úthlutun. Ég fagna því að þess sér merki í þessum plöggum að slíkt hafi tekist, það er stór breyting til batnaðar.

Ég mun ekki hafa langt mál nú við 2. umr. vegna þess að sjálfur hef ég ekki tekið mikinn þátt í vinnu við frumvarpið, en ætla samt að leyfa mér að tæpa á nokkrum atriðum sem ég tel mjög mikilvægt að komi fram. Hið fyrsta er einfaldlega sá að ég er enn þeirrar skoðunar að skuldir ríkisins eins og þær eru uppsettar og koma fram séu enn óviðráðanlegar nema áfram verði hart gengið fram í því að skera niður í heilbrigðis-, velferðar- og menntamálum. Það er náttúrlega skýrt í þessum fjárlögum.

Ég leyfi mér að benda á að allur tekjuskattur ríkisins á næsta ári, 73,5 milljarðar á greiðslugrunni, 77,5 milljarðar á rekstrargrunni, allur tekjuskattur einstaklinga og staðgreiðsla, fer eingöngu í að greiða vexti af skuldum ríkisins — eingöngu vextina. Það er verið að auka við skuldir ríkissjóðs á næsta ári í stað þess að greiða þær niður. Við erum því á rangri vegferð.

Ég hvet menn enn einu sinni til að setjast niður og reyna að hugsa þetta mál upp á nýtt frá upphafi til enda og skipta um kúrs í þessari vegferð og taka þann pól í hæðina að kominn sé tími til að ríkissjóður og hæstv. fjármálaráðherra fari í samningaviðræður við þá sem ríkið skuldar svona mikla peninga og fái frestun á þessum gríðarlegu vaxtagreiðslum þótt ekki væri nema að hluta til til örfárra ára, tveggja til þriggja ára, á meðan við erum að komast upp úr dýpstu kreppunni. Þá fjármuni þarf að nýta til þess að styrkja heilbrigðis- og velferðarkerfið og menntakerfið og búa betur að þessum grunnstoðum svo að við séum betur til þess fallin að takast á við þá hagþróun sem mun væntanlega og vonandi eiga sér stað hér eftir nokkur ár.

Að mínu mati er þetta grundvallarforsenda þess að við getum vaxið upp úr þeirri kreppu sem við erum enn í. Það þarf að stokka stjórnsýsluna eins og hún leggur sig rækilega upp, stjórnsýslu ráðuneytanna, klára sameiningu ráðuneyta sem stefnt var að og fara í uppstokkun á stofnunum ríkisins frá grunni og endurskilgreina hlutverk margra þeirra.

RÚV er klassískt dæmi. Það virðist vera gríðarlegt bákn í risastóru húsi í Efstaleiti sem gegnir einu mikilvægasta menningarhlutverki sem til er á Íslandi en er samt eins og risaeðla í framkvæmd. Starfsemi eins og sú sem Ríkisútvarpið – sjónvarp býður upp á í dag væri einfaldlega hægt að koma fyrir með umtalsvert færra fólki, í umtalsvert minna og ódýrara húsnæði og á umtalsvert ódýrari máta en gert er nú, bara vegna þeirra öru tæknibreytinga sem hafa orðið í þessum geira.

Það er ýmislegt við þetta frumvarp að athuga. Ég ætla ekki að tæpa mikið á göllum þess heldur kannski að einblína á þrjú eða fjögur atriði. Ég hef skoðað rækilega breytingartillögu sjálfstæðismanna í fjárlaganefnd sem lýtur að því að allur niðurskurður sem ætlaður var til heilbrigðismála gangi til baka. Það er ein af grundvallarstefnumörkunum Hreyfingarinnar að ekki verði skorið niður í heilbrigðismálum. Þessi breytingartillaga sjálfstæðismanna í fjárlaganefnd gengur út á það. Þótt ég sé ekki sjálfur á þeirri tillögu styð ég hana heils hugar og mun tala fyrir því máli og greiða atkvæði með því þegar þar að kemur.

Eins er breytingartillaga frá hv. þm. Lilju Mósesdóttur sem mér finnst mikilvægt að ræða hér, en hún snýr að því að fella niður framlög úr ríkissjóði til stjórnmálaflokka. Við tókum virkan þátt í því nefndarstarfi sem fram fór þegar verið var að endurbæta lög um fjármál stjórnmálaflokka fyrir tveimur árum. Við lögðum fram ýmsar mikilvægar og merkilegar tillögur í púkkið sem fengu ekki framgang. Við sitjum enn uppi með fyrirkomulag sem mismunar stjórnmálaflokkum fjárhagslega. Opinbert ríkisframlag til stjórnmálahreyfinga á Íslandi mismunar stjórnmálaflokkum og gerir það að verkum að minni flokkar standa svo höllum fæti miðað við þá stærri að þeir eiga nánast ekki séns.

Það að framlög til stjórnarflokka skuli fara eftir stærð þeirra á þingi er náttúrlega bara arfleifð þess að menn hafa hér ætíð notað meirihlutavald í staðinn fyrir að reyna að koma málum í skikkanlegri farveg, og er enn við lýði. Það er ekkert sem réttlætir það frá lýðræðislegu sjónarmiði að stór flokkur þurfi meiri peninga en minni stjórnmálaflokkar. Það þurfa allir stjórnmálaflokkar skrifstofuhúsnæði, fundaaðstöðu, a.m.k. einn framkvæmdastjóra og sennilega einn aðstoðarmann. Það skiptir í rauninni ekki máli hvað þeir eru stórir; því stærri sem þeir eru því minna ættu þeir e.t.v. að fá frá ríkinu vegna þess að þeir fá þá inn meiri peninga í félagsgjöld, þ.e. ef þeir rukka félagsgjöld. En að úthlutunin skuli fara fram eftir stærð býr til viðvarandi lýðræðishalla í þessum málum.

Þangað til þessum málum verður komið í skikkanlegra horf styð ég að þetta framlag verði fellt niður í heilu lagi því að það er mjög ólýðræðislegt og illa búandi við það að fjórflokkurinn úthluti sér vel á annan milljarð á kjörtímabilinu úr almannasjóðum til þess að skekkja lýðræðið í landinu. Það er bara rangt og ég bið menn að velta því fyrir sér þegar við komum hingað í þriðja sinn með breytingartillögur okkar, sem verður kannski eftir áramót, um breytingar á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka, að leggjast yfir þær og skoða út frá þessum sjónarmiðum: Hvað er gott fyrir lýðræðið í landinu og framgang þess í heild sinni? — en ekki: Hvað er gott fyrir mig persónulega og minn flokk? Við þurfum að breyta þeim hugsunarhætti.

Annað sem mig langar að gera athugasemd við varðandi úthlutunina er að komið hefur í ljós að tveir stjórnmálaflokkar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, hafa ekki skilað inn árituðum endurskoðuðum ársreikningum fyrir árið 2010. Samkvæmt lögum bar þeim að gera það 1. október. Þetta er annað árið í röð sem þessi lög hafa verið brotin. Þetta er annað árið í röð sem ríkisendurskoðandi, sem á að hafa eftirlit með þessum málum, veit af þessu. Hann viðurkenndi það síðastliðinn föstudag fyrir umhverfis- og samgöngunefnd að þeir hjá Ríkisendurskoðun vissu af þessu máli en hefðu ekkert gert í því. Það eru viðurlög við þessu.

Það sem merkilegra er er að fjárlaganefnd er að afgreiða þennan lið úr nefnd og til atkvæðagreiðslu í þinginu án þess að hafa fengið að sjá þessa árituðu ársreikninga. Það er e.t.v. ekki endilega brot á lögum að fjárlaganefnd geri slíkt, en mér finnst stórlega varhugavert að nefndin skuli ekki tryggja það áður en málið fer í 2. umr. í þingsal að þessir stjórnmálaflokkar geri skil á fjármálum sínum samkvæmt lögum.

Hv. formaður fjárlaganefndar er að vísu farinn úr salnum. Ég ætlaði að spyrja hana um hvað hún ætlaði að gera í málinu milli 2. og 3. umr. og legg áherslu á að Alþingi afgreiði ekki fjárframlög til stjórnmálaflokka ef þeir fylgja ekki lögum. Það er óbærileg tilhugsun ef Alþingi ætlar að gera það. Menn mega ekki skýla sér á bak við þá afsökun að það sé úthlutunin sem skipti máli og úthlutunin sjálf fari ekki fram fyrr en á næsta ári. Til þess að fá fjárframlög eiga stjórnmálaflokkar samkvæmt lögum að skila ársreikningum árituðum ekki síðar en 1. október.

Mig langar til að gera athugasemd við eitt mál í viðbót. Það varðar úthlutanir samkvæmt svokallaðri 20/20 áætlun. Sú áætlun var sett fram í upphafi kjörtímabilsins og er mjög metnaðarfullt og merkilegt plagg. Áætlunin tekur að mínu viti heildstætt og af meiri skynsemi á byggðamálum alls landsins í einum pakka; betur en nokkur önnur áætlun sem sett hefur verið fram hér á landi. Eins og kannski gefur augaleið er ekki til fjármagn í allt það sem lagt er upp með í þeirri áætlun. Þess vegna voru sveitarfélög og landshlutasamtök sveitarfélaga hvött til þess að hafa með sér samvinnu og velja eitt mikilvægt verkefni fyrir hvern landshluta sem þau vildu fá í fjárlögin fyrir næsta ár.

Mér er kunnugt um að Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi hafi sammælst um, eftir gríðarlega mikla vinnu, mikil fundahöld, mikil ferðalög sveitarstjórnarmanna á öllu Suðurlandi, frá Garði austur á Höfn í Hornafirði, eitt verkefni þótt þau eigi öll við alvarlega fjárhagsörðugleika að stríða og glími öll við erfitt atvinnuástand. Þau sammæltust að lokum um að Skaftárhreppur og áætlanir um Klausturstofu, sem tengjast beint uppbyggingu Vatnajökulsþjóðgarðs, skyldi verða það verkefni sem valið yrði sem forgangsverkefni númer eitt á öllu Suðurlandi. Svo þegar kom að því að ráðherranefndin skyldi fjármagna þau verkefni sem valin voru af sveitarfélögunum var litið á listann og þau verkefni sem kostuðu peninga tekin út. Verkefnið sem öll sveitarfélög á Suðurlandi voru sammála um að ætti að vera númer eitt datt út af borðinu. Það er eitthvert verkefni þar núna sem ráðherranefndin valdi, sem ég kann í sjálfu sér ekki einu sinni skil á, en það eina sem ég veit um það er að það kostar ekki neitt. Þetta finnst mér vera mjög varasöm og hættuleg þróun við fjárlagagerð. Þetta er af svipuðum meiði og að verið er að endurskipuleggja heilbrigðisþjónustu um allt land í gegnum fjárlögin. Í gegnum fjárlögin er verið að taka þessa gríðarlega miklu og vönduðu áætlun, 20/20-áætlunina, og slátra henni og sýna þar með sveitarfélögunum, sem hafa lagt á sig gríðarlega vinnu, algert virðingarleysi. Þetta er mjög slæmt fyrir öll framtíðarsamskipti sveitarfélaga og ríkisvaldsins. Ég hef verið að ræða þetta hér á göngunum við þingmenn kjördæmisins, m.a. hæstv. fjármálaráðherra sjálfan. Menn standa svolítið á gati og segja: Já, humm, jú, hvað? Hér þarf að viðhafa betri vinnubrögð í framtíðinni, það er einfaldlega þannig. Menn hafa talað um að ekki sé hægt að koma þessu inn í þessi fjárlög vegna þess að búið sé að taka safnliðina af og að málið þurfi að fara í gegnum ráðuneytin.

Mig langar hér úr ræðustól að hvetja þá þingmenn kjördæmisins sem heyra þessa umræðu, einn þeirra situr nú í þingsal, að leggja áherslu á að verkefnum af þessum toga verði sýnd meiri virðing. Í þessu einstaka tilviki er um að ræða landsvæði sem er einfaldlega við það að leggjast í eyði — stærðarlandsvæði frá Vík í Mýrdal austur að Skaftafelli — vegna þess það er að verða líffræðileg breyting þar. Margt fólk þar er orðið mjög aldrað. Það kemur ekkert ungt fólk á svæðið. Þetta er nokkuð sem sveitarstjórnarmenn hafa legið lengi yfir og skoðað og komist að því að það sé einmitt fyrrnefnt verkefni sem gæti snúið við þessari þróun á svæðinu.

Það síðasta sem ég vildi svo tæpa á og ég talaði örlítið um í upphafi ræðu minnar er sá árangur sem hefur náðst við það að færa safnliðina í faglegt umhverfi þar sem það veltur ekki á þingmönnum einstakra kjördæma hvaða verkefni fá úthlutun. Það gleður mig, ég segi ekki óumræðilega en allmikið, að sjá, með fullri virðingu fyrir jólasveinum í Mývatnssveit, að þeir skuli ekki vera á fjárlögum næsta árs, að Spákonusetrið á Skagaströnd skuli ekki vera á fjárlögum næsta árs, með fullri virðingu fyrir því, og að Skrímslasetrið á Bíldudal skuli heldur ekki vera á fjárlögum næsta árs, með fullri virðingu fyrir því. Allt hafa þetta verið þörf, merkileg og mikilvæg verkefni hvert á sína vísu en það fyrirkomulag sem haft hefur verið við úthlutun safnliða hefur runnið sitt skeið á Alþingi. Þetta er risastórt skref í rétta átt og fagna ég því.

Ég vil að lokum bara þakka þeim fjárlaganefndarmönnum sem ég hef verið að ræða við undanfarnar vikur og mánuði og hafa miðlað til mín upplýsingum af þeim fundum sem ég hef ekki komist á fyrir aðstoðina og fyrir það að vera hjálpsamir við að gera mér m.a. kleift að fjalla um þessi mál hér í dag. Það er mikið að gera á stóru skipi, eins og menn sögðu í gamla daga, og við í Hreyfingunni höfum ekki mikinn tíma aflögu og verðum að forgangsraða. Því miður hefur fjárlaganefndarvinnan setið á hakanum hjá mér.