140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þór Saari fyrir ágæta ræðu. Hann kom víða við. Það var eitt atriði í byrjun ræðu hans sem stakk mig dálítið, það var umræðan um vextina. Verðbólga er tæki stjórnvalda til að rýra skuldir og innstæður, það sama á við um ríkissjóð. Það kom frétt í dag um að innan OECD væri verðbólgan 3,2% að meðaltali. Verðbólgan var 3,2% í september, í Bandaríkjunum var hún 3,5% í bandaríkjadölum, 5% í Bretlandi í pundum og á evrusvæðinu var verðbólgan 3%. Ég geri ráð fyrir því að á Íslandi verði verðbólgan 5–6%, þannig að ríkissjóður græðir alls staðar á verðbólgunni því að hann skuldar jú í þessum myntum; í krónum, evrum, bandaríkjadölum o.s.frv. Það er helst í Japan sem verðbólgan er ekki nægilega mikil því að þar varð verðhjöðnun upp á 0,2%.

Það hlýtur maður að sjálfsögðu að taka með inn í myndina þegar maður skoðar vaxtagreiðslur ríkissjóðs því að verðbætur teljast sem vextir og slíkt er yfirleitt ekki sundurgreint. En skuldin rýrnar stöðugt vegna verðbólgu í hinum ýmsum myntum. Verðbólga fer víða vaxandi í heiminum sem gerir það að verkum að skuldir ríkissjóðs rýrna, jafnvel þannig að hann borgar enga raunvexti. Ég hef ekki kynnt mér það, en þetta þarf að hafa í huga þegar maður málar stöðu ríkissjóðs jafndökka og hv. þingmaður gerði.