140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[20:44]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Hv. þingmaður sagði hér að ekki væri gert ráð fyrir mikilli atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslunum. Það er hárrétt. Það er reyndar gert ráð fyrir þeim framkvæmdum sem Landsvirkjun er að fara í, þ.e. þessum 3 eða 4 milljörðum, það er í hagvaxtarspá Hagstofunnar.

Það kom líka mjög skýrt fram, og hægt er að lesa það út úr þjóðhagsspánni, að margir óvissuþættir gera þeim erfitt um vik að spá fyrir um hlutina. Hv. þingmaður segir að hann hafi þær upplýsingar að hugsanlega fari af stað mikil atvinnuuppbygging í Þingeyjarsýslum mjög fljótlega. Ég á enga ósk heitari en að það sé rétt mat hjá hv. þingmanni.

Fyrir nokkrum mánuðum horfði ég hins vegar á hv. þingmann í hinum fræga þætti þeirra félaganna, Svörtum tungum. Þá sagði hv. þingmaður að mikilla tíðinda væri að vænta innan örfárra daga eða vikna. Síðan eru liðnir ótal margir mánuðir. Menn verða að fara varlega í svona hluti þó að ég voni svo sannarlega að hv. þingmaður hafi þær upplýsingar sem reynist réttar. Forstjóri Landsvirkjunar ítrekaði það í fréttum þegar álverið var slegið af á Bakka að verið væri að skoða ýmislegt en ítrekaði það svo margoft í sama viðtali að ekkert væri í hendi, hann margtók það fram að menn skyldu ekki gera sér neinar væntingar.

Ég fagna því sérstaklega ef hv. þingmaður hefur fengið þær upplýsingar en það er svo sem ekki nýtt að á stjórnarheimilinu sé sagt að alltaf sé eitthvað að gerast hinum megin við hornið. Ég vænti þess því að hv. þingmaður deili einhverju af þessu með okkur hér á Alþingi þó ekki væri nema broti af þeim upplýsingum sem hann hefur.