140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[23:23]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að niðurskurðarkrafa á heilbrigðisstofnanir er mikil. Eftir sem áður held ég að við eigum að horfast í augu við það að sums staðar var alveg hægt að breyta og kannski eigum við bara að horfast í augu við það að til dæmis verður sjúkrarýmum sums staðar fækkað. Aðalmálið er hvernig vinnubrögðin við það eru. Það skiptir máli hvernig við vinnum svona verk, að ráðrúm gefist til að breyta skipulaginu. En eftir sem áður get ég ekki að því gert að ég er á því að við eigum að þakka fyrir að um 500 milljónir eru þó settar aftur í heilbrigðiskerfið, það hlýtur að vera þakkarvert.