140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[01:34]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Margir þingmenn hafa flutt góðar ræður í þessari umræðu. Ég vil draga það fram að þeir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem talað hafa á undan mér, fyrir utan Pétur H. Blöndal, eru í fjárlaganefnd og hafa farið mjög vel yfir vinnuna í fjárlaganefnd, það sem greinilega mátti betur fara við vinnu fjárlaganefndar en ekki síður hjá hæstv. fjármálaráðherra. Samflokksmenn mínir, ásamt Pétri Blöndal, hafa furðað sig á því hversu lítið er talað um tekjuhlið frumvarpsins og búið er að boða til fundar í efnahags- og viðskiptanefnd í fyrramálið til að fara yfir tekjuhliðina sem ekki er miklu púðri eytt í í nýja fjárlagafrumvarpinu af hálfu fjárlaganefndar.

Ég vil tengja það því sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson sagði áðan, að það er umhugsunarefni fyrir fjárlaganefnd að hafa ekki heildstæða mynd og þá verður nefndin að leggja fram tillögu um breytingu á þingskapalögum.

Búið er að fara vel yfir þetta, það er líka búið að fara vel yfir gjaldahliðina á frumvarpinu. Ég tek undir þá gagnrýni sem verið hefur á vinnubrögðin í tengslum við fjárlögin öll. Ég var í fjárlaganefnd í fyrra og eftir að hafa hlustað á þessar ræður finnst mér ég oft heyra sömu ræðurnar. Það er eins og lítið tillit hafi verið tekið af hálfu fjármálaráðuneytisins til þess sem sagt var í fyrra en ég verð þó að undirstrika að fjárlaganefnd hefur reynt að breyta vinnubrögðum sínum. Ég held að þess megi sjá stað nú í því nefndaráliti sem kemur frá meiri hluta fjárlaganefndar.

Ég mun fara í ákveðin efnisatriði á eftir og gagnrýna þau, og reyndar líka hæla, en við sjáum hér ákveðna áherslubreytingu. Leikmenn sjá hana kannski ekki strax en það er að verða áherslubreyting á framsetningunni og tel ég það til fyrirmyndar. Ég þakka það þeirri nefndarvinnu sem Oddný G. Harðardóttir, hv. þm. Suðurkjördæmis, leiddi og tengist úthlutun safnliða. Ég ræddi um það í andsvari mínu og hv. þingmaður svaraði því og fór vel yfir það sem gert var af hálfu undirhóps þáverandi fjárlaganefndar.

Ég held að það skipti miklu máli að fjárlagafrumvarpið er ákveðin stefnumörkun ríkisstjórnar um leið og það er miður að sjá að ekki er sterkari stefnumótun í heilbrigðismálum. Það er mjög gagnrýnisvert að við sjáum ekki heildstæða stefnumörkun í heilbrigðismálum, hvað þá í menntamálum. Til lengri tíma litið sjáum við ákveðin markmið sem ríkisstjórnin setur sér. Það sem vantar í fjárlagafrumvarpið er stefnumörkun til framtíðar, sem er einmitt það sem ég hef talað um áður í þessum sal. Fyrrverandi seðlabankastjóri, Svein Harald Øygard, talaði um það á fundi þingmannanefndar EFTA í Brussel ekki fyrir löngu. Hann sagði að margt hefði verið ágætlega gert hér á landi, bæði af hálfu fyrri ríkisstjórnar og núverandi ríkisstjórnar, og er hægt að taka undir hluta af því sem hann sagði þar. Hann sagði að það vantaði algjörlega efnahagsstefnu, það vantaði stefnu til framtíðar í atvinnumálum, í fjárfestingum, í efnahagsmálum. Ég tek undir með honum um að það vantar svo sannarlega og ég tel að fjárlagafrumvarpið undirstriki enn og aftur þetta stefnuleysi. Það er bara verið að reyna að koma hlutunum áfram en ekki tekið raunverulega á hlutunum, það er ekki reynt að stækka kökuna.

Við tölum í nefndaráliti okkar um að það þurfi að stækka skattstofnana. Í hinni pólitísku orðræðu er oftar en ekki talað um að stækka kökuna og við þurfum að gera það. Það hefur þessi ríkisstjórn ekki gert, aldeilis ekki. Við tölum um erlendar fjárfestingar, þær þurfi að koma til landsins. Auk þess erum við með hæstv. forsætisráðherra sem talar um þjóðnýtingu, sem er að mínu mati afar skaðleg fyrir allt umhverfi okkar á Íslandi. Síðan má sannarlega gagnrýna ákvörðun Ögmundar Jónassonar, hæstv. innanríkisráðherra, og hvernig hann meðhöndlaði umsókn Kínverjans Huangs Nubos um kaup á Grímsstöðum á Fjöllum. Það er alveg hægt að skilja ákveðna tregðu, ákveðna tortryggni o.fl. gagnvart því kauptilboði en framsetningin á málinu lýsir miklu frekar mikilli grunnhyggni þegar við hugsum um hina stóru mynd, þá hugmynd að reyna að skapa störf, að laða að fjárfestingu. Það var sorglegt að ekki var talað við umsækjandann, þann sem sótti um undanþáguna eða fólkið heima í héraði, við sveitarstjórnarfólkið sem mótmælir nú harðlega afgreiðslu hæstv. innanríkisráðherra. Þetta mál er á ábyrgð ríkisstjórnar Íslands, ekki bara Vinstri grænna heldur líka Samfylkingar. Með því að lýsa ekki yfir fullu vantrausti á gjörðir hæstv. innanríkisráðherra samþykkja þeir um leið alla málsmeðferðina. Ég held að það sé algjörlega nauðsynlegt að skoða upp á nýtt hvernig hægt er að taka á svona málum, hvernig menn ætla að haga samskiptum við þá erlendu fjárfesta sem vilja koma til landsins og fjárfesta í landi, fjárfesta í ýmsu hér á landi. Aðferð ríkisstjórnarinnar gengur að mínu mati ekki upp til lengri tíma litið, þannig að það sé sagt, og hún skaðar um leið möguleika okkar á að stækka þessa blessuðu köku sem okkur er svo nauðsynlegt að stækka.

Herra forseti afsakar að ég fari aðeins í byrjun úr einu í annað, en þetta tengist reyndar stækkun kökunnar. Ég var að lesa hið bráðskemmtilega blað Austurgluggann, og mér sýnist að ýmsir góðir komi að því riti. Þar eru m.a. fréttir frá Fjarðaáli, sem er ekkert óeðlilegt, enda er það stórfyrirtæki fyrir austan, eitt stærsta fyrirtæki okkar hér á Íslandi. Útflutningur frá Fjarðaáli nemur um 250 millj. kr. á dag. Síðan er sagt að það skapi ekki tekjur. Það skapar störf og tekjur og það er alveg ótrúlega þreytandi að heyra sífellt þá bábilju að áliðnaðurinn skapi ekki störf, undirbyggi ekki þekkingu o.s.frv.

Ég held því að það skipti miklu máli að menn opni augun fyrir þeirri fjárfestingu sem enn er möguleg. Menn eru enn þá haldnir þeirri grillu að Kárahnjúkar séu ekki arðbær fjárfesting. Það er margbúið að sýna fram á að Kárahnjúkar eru það og hafa verið það og nýjustu tölur frá Landsvirkjun sýna að samningarnir voru miklu betri en menn vilja vera láta. Við verðum að halda áfram að skapa störf.

Ég frábið mér að sagt sé, þegar við sjálfstæðismenn og fleiri flokkar eins og Framsóknarflokkurinn, tölum um að líta þurfi til allra átta, að hleypa þurfi að framkvæmdunum í Helguvík, að við viljum eingöngu líta til stórframkvæmda og áliðnaðar. Það er ekki þannig. Þetta getur alveg farið saman, lítil fyrirtæki, meðalstór fyrirtæki og iðnaður eins og áliðnaður. Ég held að það sé mjög mikilvægt að ríkisstjórnin taki ákvörðun um það og segi bara: Gott og vel, við erum ekki sammála um Helguvík en við ætlum að fara í þessar framkvæmdir af því að þær skapa störf. Fyrst við tölum um lítil og meðalstór fyrirtæki veit ég að ef Helguvík færi af stað yrði strax komið upp skrifstofu annaðhvort í Hafnarfirði eða suður með sjó með verkfræðingum, tæknifræðingum, smiðum o.s.frv.

Það sem skiptir okkur máli er atvinnusköpun. En hvað gerist svo? Samkvæmt nýjustu spá Hagstofunnar mun atvinnuleysið aukast, fara úr 6% í 6,4% á næsta ári, og hvað þýðir það? Það kemur strax fram í tillögum meiri hluta þingsins að auðvitað þarf að bæta því inn í fjárlögin.

Þannig er það, það þarf að stækka kökuna hvort sem mönnum líkar það betur eða verr og menn eiga að hætta að eyða endalaust púðri í ráðherrahrókeringar. Menn eiga að einbeita sér að því sem skiptir máli fyrir fólkið í landinu en ekki að ráðherrum sem vilja halda í stólana sína. Fólk skilur ekki þau vinnubrögð og þá forgangsröðun hjá ríkisstjórninni.

Talandi um forgangsröðun, 37 milljónir í aðstoðarmenn ráðherra. Það er forgangsröðun ríkisstjórnarinnar að bæta við 37 milljónum í aðstoðarmenn ráðherra og fara í flatan niðurskurð á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni, það er hægt að taka það sem dæmi. (Gripið fram í.) Ja, þetta stendur hér svart á hvítu. Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr (Gripið fram í.) er hér farið í mjög harkalegan niðurskurð á heilbrigðisstofnunum. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)

(Forseti (KLM): Gefið ræðumanni hljóð.)

Sleppum því að tala um flatan niðurskurð en hann er alla vega harkalegur. Menn þurfa að fara í svona harkalegan niðurskurð til þess að eiga upp í þær 37 milljónir til að bæta við fleiri aðstoðarmönnum í Stjórnarráði Íslands.

Svo er hægt að tala um sérstakan saksóknara, það embætti stendur enn og menn gerðu sér ekki grein fyrir að það mundi vera áfram næsta ár, sem er miður. Þar er gert ráð fyrir viðbótarfjárveitingum þannig að forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er mjög skringileg þegar kemur að uppbyggingu í samfélaginu.

Af því að ég er í allsherjar- og menntamálanefnd ætla ég að fara í nokkur atriði sem tengjast þeirri nefnd fyrst félagar mínir í flokknum sem eru í fjárlaganefnd hafa farið yfir stóru málin sem snerta tekju- og gjaldahliðina og hvernig við hefðum viljað sjá uppbygginguna til lengri tíma.

Ég tek fram að ég tel það tvímælalaust rétt skref hjá hæstv. ríkisstjórn og hæstv. menntamálaráðherra það sem tengist vinnumarkaðssjóðnum, þ.e. að efla iðn- og starfsnám, fara inn í fyrirtækin og stuðla að því að þau geti tekið að sér starfsnámsnema, iðnnema o.s.frv. En á móti kemur að það var mikil sorg að ríkisstjórnin skyldi ekki hafa forgangsraðað í þá veru árið 2009, það er mjög sérstakt því að það er sá þáttur sem Finnar lögðu mikla áherslu á þegar þeir reyndu að koma sér út úr þrengingum sínum fyrir nokkrum árum. Ríkisstjórnin frestaði því sem stóð í lögum frá 2008, fram til ársins 2012, en ég dreg fram að það er fagnaðarefni að farið skuli af stað með þetta nú. Ég vonast til þess að það verði ekki tímabundið framlag eins og stendur í frumvarpinu heldur að það verði til framtíðar því að það skiptir miklu máli að halda áfram að byggja á þeim lögum sem allir flokkar samþykktu 2008. Ég tel það hafa verið mikla skammsýni af hálfu ríkisstjórnarinnar og hæstv. menntamálaráðherra að fresta þeim lögum eins og gert var. Það var mikil skammsýni en nú ætla menn að halda áfram eftir þeirri braut og er það vel.

Ég vek athygli á því að verið er að skera niður til menntamála. Verið er að hagræða, vissulega minna, en skorið er niður innan menntakerfisins. Það er pólitískt álitamál hvort rétt sé að gera það. Ég er þeirrar skoðunar og sagði það strax í byrjun eftir hrunið, um áramótin 2008–2009, að við yrðum að þora og hafa kjark til þess að forgangsraða í þágu menntunar, þannig kæmumst við fljótar út úr þeim hremmingum sem við stöndum enn í. Það gerði þessi ríkisstjórn ekki, hún hélt ekki áfram því uppbyggingarstarfi sem hafið var en heldur áfram að narta í mennta- og skólakerfið.

Ég velti því hins vegar fyrir mér, fyrst það er niðurskurður upp á um 1,5–3% innan menntakerfisins, af hverju verið er að skera niður fjárframlög til Litla-Hrauns í menntun fanga. Ef ég les það rétt er heildarfjárhæðin til Litla-Hrauns og Bitru í fjárlögunum 2011 í kringum 27,4 milljónir. Samkvæmt frumvarpinu sýnist mér framlögin vera 21,8 milljón sem er um 20% skerðing. Ég tel rangt að skera niður menntun fanga með þessum hætti, meira en menntun annarra.

Ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar að ákveðnum glæpamönnum beri að refsa harðlega, til að mynda fíkniefnasölum. En á móti kemur að við verðum að muna að þeir einstaklingar sem dæmdir hafa verið til fangavistar, hvort sem er á Litla-Hrauni eða annars staðar, koma aftur út í samfélagið. Við verðum að spyrja okkur að því hvernig einstaklinga við viljum fá út í samfélagið aftur. Þá tel ég menntun tvímælalaust vera bestu leiðina til að bæta fólk þannig að við tökum því fagnandi þegar það hefur tekið út refsingu sína. Ég velti þessu því fyrir mér — ég ætla ekki að kalla eftir hæstv. menntamálaráðherra sem hefur nóg á sinni könnu — af hverju fjárframlög til menntunar fanga eru skert hlutfallslega meira í fjárlögum en til annarra. Það er svo seinni tíma umræða hvernig menntun kvenfanga er háttað.

Ég vil líka nefna það vandamál sem Ríkisendurskoðun hefur bent á og það er Hólaskóli. Hvað á að gera við Hólaskóla? Það er alveg hróplegt að horfa upp á stefnuleysið sem birtist í fjárlögum. Það er stefnuleysi í heilbrigðismálum og það er að mínu mati stefnuleysi í menntamálunum hvað skólamálin varðar. Ekki hafa verið teknar neinar ákvarðanir um sameiningu stórra skóla síðan 2007 þegar Kennaraháskóli Íslands var sameinaður Háskóla Íslands. Þar áður var Tækniháskóli Íslands sameinaður Háskólanum í Reykjavík. Í ljósi þess að Hólaskóli stendur endalaust frammi fyrir fjárþrengingum og fer fram úr fjárheimildum sínum hljóta menn að taka það til umhugsunar hvernig hægt er að auka samvinnu eða fara í sameiningu þar. Menn verða að þora að gera það þó að það kunni að vera pólitískt erfitt, hvort sem það er heima í héraði eða í ráðuneytinu. Menn verða að þora að fara í frekari sameiningar, alla vega að ýta undir meiri samvinnu en var boðuð með því að fara í samstarfsnet háskólanna. Ég ekki enn þá farin að sjá þá miklu samvinnu sem við óskuðum eftir. Það getur vel verið að það sé margt í pípunum en samvinnuátakið er ekki farið af stað ári eftir að það var boðað í síðustu fjárlögum. Það þarf að taka markvissari ákvarðanir og setja fram markvissari stefnumótun í menntamálunum eins og blasir við að þarf að gera í heilbrigðismálunum, en það virðist vera eins og menn kasti bara teningum í heilbrigðismálunum og láti það ráða hvaða leiðir menn ætla að fara þar. Það er sárt að horfa upp á heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni standa frammi fyrir þeim sársaukafulla niðurskurði sem boðaður er í nefndaráliti meiri hlutans og það er alveg ljóst að heilbrigðiskerfið er komið að sársaukamörkum hvað niðurskurð varðar.

Talandi um stefnuleysi blasir það við mér þar sem ég kem úr Hafnarfirði, hvernig St. Jósefsspítali var lagður niður fyrir ári síðan án þess að menn sæju það fyrir. Þá var lofað ýmsu — ég ætla ekki að segja öllu fögru — að þar yrði áfram ákveðin starfsemi. Reyndar var stefnumótunin um St. Jósefsspítala árið 2007 mun erfiðari, þá var talað um að stofnuð yrði miðstöð öldrunarlækninga á höfuðborgarsvæðinu. Því var reyndar tekið fálega, sem er hægt að sýta núna.

Það er alveg ótrúlegt að fylgjast með hæstv. velferðarráðherra og það er svo sárt að sjá að nú er strax komin fram tillaga um það, og svona tillaga kemur ekki fram nema menn spyrji velferðarráðherra, að selja húsnæði St. Jósefsspítala. Það hlýtur að hafa verið gert með vitund og vilja meiri hluta bæjarstjórnarinnar í Hafnarfirði. Það er mjög sérstakt að sjá hversu illa bæjarstjórnin í Hafnarfirði hefur staðið í lappirnar hvað viðkemur öllum umbreytingunum á St. Jósefsspítala.

Ég sagði allan tímann að ég mundi ekki standa gegn þess háttar breytingum ef þær hefðu raunverulega hagræðingu í för með sér, ef gætt yrði að réttindum starfsfólks, þekkingin og reynslan væru varðveitt og að gætt yrði að þjónustustiginu, hvort sem er á Landspítala – háskólasjúkrahúsi eða annars staðar. Það hefur ekki verið sýnt fram á neitt af þessu, ekki neitt, það er bara lokað á starfsemi og engin stefnumörkun sem liggur fyrir, akkúrat ekki nein. Ekkert aðhald er af hálfu bæjarstjórnarinnar í Hafnarfirði og það er örugglega vegna þess að það eru sömu flokkar sem ráða þar og þeir sem stjórna ferðinni í ríkisfjármálunum. Það er sárt að horfa upp á þetta gamalgróna húsnæði eins og það er nú, og ekki bara húsnæðið heldur líka það mikla starf þarna var og sem verið hefur áratugum saman, ekki síst fyrir tilstilli St. Jósefssystra. Þær gáfu samfélaginu í Hafnarfirði og íslensku samfélagi þetta stórkostlega starf sitt áratugum saman. Það er dæmi um það stefnuleysi hjá ríkisstjórninni í heilbrigðismálunum sem ég hef bent á.

Ég ætla að nefna eitt atriði í viðbót varðandi menntamálin, það tengist skrásetningargjöldunum. Það er tillaga meiri hluta fjárlaganefndar um að fjárheimild Háskóla Íslands hækki um 225 milljónir og aðrir, eins og Háskólinn á Akureyri, hækki um 22,5 milljónir, Landbúnaðarháskóli Íslands hækki um 3,5 milljónir o.s.frv. Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til hækkun skrásetningargjalda úr 45 þús. kr. í 60 þús. kr. Ég er ekki á móti þeirri hækkun, síður en svo. Ég tel að það sé mikilvægt fyrir háskólana að fá upp í þann kostnað sem hefur svo sannarlega aukist frá árinu 2005 og tengist tilkostnaði við rekstur vegna launa og gengishækkana og ýmislegs sem tengist skrásetningargjöldum.

En öðruvísi mér áður brá, það verð ég að segja, því að ég man umræðuna árið 2005 þegar ég sem þáverandi menntamálaráðherra lagði fram tillögu um hækkun skrásetningargjalda úr 32.500 kr. í 45.000 kr.. Þá ætlaði allt um koll að keyra. Meira að segja sagði núverandi hæstv. fjármálaráðherra að það væri algjörlega fáránlegt, að þarna væri nú einu sinni komin gjaldtaka og menn mundu strax sæta færis að hækka gjaldið, það væri ekkert sem kæmi í veg fyrir að menn mundu hækka gjaldið enn meira eftir tvö, þrjú ár.

Gjaldið var ekki hækkað 2005, en það á að hækka það núna þegar vinstri menn eru við stjórnvölinn. Það er skynsamlegt að fara þessa leið en það er ekki í samræmi við fyrri orð þeirra frekar en svo margt annað sem vinstri menn hafa látið frá sér. Ég ætla nú ekki að fara yfir það núna en það er svo stórkarlaleg ræða sem núverandi hæstv. fjármálaráðherra hélt varðandi innritunargjöldin að það virðist vera að þáverandi menntamálaráðherra hafi verið algjörlega galin að leyfa sér að hugsa svona. En núna eru sem sagt vinstri menn við stjórnvölinn, þeir átta sig á að hægt er að fara þessa leið við að auka fjárheimildir til háskólanna enda er hún byggð á því að raunverulegur kostnaður skólanna búi þar að baki. En það var ekki bara hæstv. fjármálaráðherra sem mótmælti þessu kröftuglega, það gerðu líka hv. þm. Mörður Árnason, hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson sem enn eru á þingi. Þeir voru algjörlega á móti tillögunni og nú er verið að hækka innritunargjöldin mun meira.

Reyndar vakti einn þingmaður stjórnarandstöðunnar athygli á því að hækkunin gæti hugsanlega komið illa við konur og yrði sérstaklega erfið fyrir þær. Ég hlýt að gefa mér að ríkisstjórn hinnar kynjuðu hagstjórnar hljóti að hafa rýnt hækkunina, skoðað hvaða áhrif hún mun hafa á konur í háskólanámi eða þær sem vilja fara í háskólanám, ég gef mér það bara, með formann fjárlaganefndar sem hefur verið ötull talsmaður jafnréttis. Þessir flokkar sem vinna á grundvelli kynjaðrar hagstjórnar hljóti að hafa rýnt hvað þessi hækkun mun þýða, ekki síst í ljósi þess að einn af þingmönnum þeirra í gegnum tíðina benti á þetta atriði þegar fara átti þessa leið fyrir sex árum. Svo því sé til haga haldið set ég mig ekki upp á móti breytingunni, en það er mikil kaldhæðni, svo vægt sé til orða tekið, að nú skuli vinstri flokkarnir ætla að fara nákvæmlega sömu leið.

Það er reyndar ankannalegt að það er ekki menntamálaráðherra sem leggur þetta fram strax í upphafi þings eða stendur hér og talar fyrir þessu máli. Það er ekki sent til umsagnar til að mynda til Stúdentaráðs og BÍSN og fleiri aðila heldur er því bara laumað í gegnum 2. umr. og á helst ekki að ræða. Það var þó meira gegnsæi í tillögunni á sínum tíma, en það er margt skrýtið í kýrhausnum.

Ég vil benda á eitt í ljósi þess að þessi ríkisstjórn telur sig vera forsvarsmenn og sérstaka talsmenn jafnréttis, að það hefur heldur betur breyst og snúist upp í andhverfu sína. Ég ætla ekki að ræða ákvörðun hæstv. forsætisráðherra í ráðningarmálum þar sem hún braut jafnréttislög og er málið núna fyrir dómstólum. Ég hefði séð sjálfstæðismenn sem ráðherra komast upp með þá framkomu sem hæstv. ráðherra gerði sig seka um gagnvart þeim sem brotið var á, en það er önnur saga.

Ég vil vekja sérstaklega athygli á því sem segir í meirihlutaáliti frá velferðarnefnd þar sem segir, með leyfi forseta, og það tengist fæðingarorlofinu:

„Meiri hlutinn telur einnig ríkt tilefni til að hafa áhyggjur af ástæðum áætlaðrar útgjaldalækkunar úr Fæðingarorlofssjóði. Samkvæmt frumvarpinu er áætluð lækkun um rúman 1 milljarð kr. vegna þess að dregið hefur úr þátttöku foreldra í fæðingarorlofi auk þess sem fæðingum hefur fækkað. Í skýrslu velferðarráðherra um fæðingar- og foreldraorlof (þskj. 1920, 542. mál, 139. þing) koma fram upplýsingar sem bera með sér að þær skerðingar sem gerðar voru á greiðslum í fæðingarorlofi á árunum 2009–2010“ — þegar vinstri stjórnin var, þessi mikla jafnréttisstjórn — „hafi haft mikil áhrif á töku foreldra á fæðingarorlofi og þá sérstaklega feðra.“ Þar kemur til dæmis fram að feðrum sem fengu greiðslur úr fæðingarorlofi fækkaði um 5,3% milli áranna 2009 og 2010 þrátt fyrir að fleiri börn hafi fæðst þessi ár en árin á undan. Hin mikla jafnréttisstjórn fer því gegn því máli sem við Íslendingar höfum verið taldir til fyrirmyndar í, það er litið til okkar varðandi fæðingarorlofsmálin. Til að mynda hafa Norðmenn hafið mikla umræðu um hvort þeir eigi ekki að fara sömu leið og við, og einnig aðrar þjóðir.

Hverjir eru það sem ráðast gegn fæðingarorlofslögunum, ekki bara einu sinni, ekki bara tvisvar, heldur þrisvar og jafnvel fjórum sinnum, það stefnir í það, og rýra þau þannig að þau missa í raun algjörlega marks?

Hvar er stefnumörkun forsætisráðherra sem talaði mjög digurbarkalega á landsfundi Samfylkingarinnar í október? Eru það allt saman orðin tóm? Þegar hæstv. forsætisráðherra talar, er það þá eins og þegar einhver maður úti í bæ tjái sig um hin og þessi málefni? Lætur hún ekki verkin tala? Það er alveg ótrúlega merkilegt að fylgjast með því.

Það er líka umhugsunarefni að þeir sem verið hafa hvað mest gagnrýnir í gegnum tíðina, eins og ASÍ, og eins og ýmsir jafnréttissinnar víða í samfélaginu voru á árum áður, skuli varla tjá sig í dag. Skyldi þá skipta máli hverjir stjórna? Telja menn virkilega að það eigi ekki að segja neitt meðan vinstri menn stjórna, þá haldi menn að jafnréttismálin séu öll bara í fínu lagi?

Það er alveg ótrúlegt og það þarf að gæta mjög vel að því. Mér finnst með ólíkindum að þeir sem sitja á þingi fyrir Vinstri græna og Samfylkinguna skuli bara kyngja þessu, eins og t.d. formaður fjárlaganefndar, svo ég tali ekki um hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttir sem talað hefur mikið og oft og fjálglega og vill eflaust vel í þessum málum. En þá verða menn að fylgja eftir skoðunum sínum, ekki bara lýsa yfir stuðningi við einstaka ráðherra sem ekkert hafa með jafnréttismál að gera. Mér er svolítið heitt í hamsi út af þessu.

Sú áherslubreyting sem er að verða með framlagningu meirihlutaálitsins og breyttra vinnubragða í fjárlaganefnd kemur berlega í ljós og er það vel. En í tengslum við mennta- og menningarmálin — ég vil alls ekki gleyma menningarmálunum — er eitt stórt atriði sem ég vek athygli á og það varðar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Ég fagna því að sjálfsögðu endurgreiðslum vegna kvikmyndagerðar á Íslandi upp á 246 millj. kr. Það á jafnframt að auka stuðning við Kvikmyndamiðstöðina Ísland, miðað við stóra planið sem þær stöllur, iðnaðarráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra, kynntu. Það var reyndar skotið í kaf af þeim sem málið snertir, m.a. kvikmyndagerðarmönnum sem sögðu það ekki vera í samræmi við það sem þeirra fór á milli, þeir hefðu ekki samþykkt það. Það má því kannski segja að þær, ráðherrarnir, hafi farið á frekar lágt plan.

Iðnaðarráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra eru reyndar að reyna að ýta starfseminni aftur af stað eftir að ríkisstjórnin klúðraði að ýmsu leyti margra ára uppbyggingu íslenskrar kvikmyndagerðar. Kvikmyndasköpunin, kvikmyndagreinin, kvikmyndalistin byggist ekki bara upp einn, tveir og þrír. Það er búið að taka mörg ár og stundum voru menn hundóánægðir úti á „feltinu“ með að hlutirnir gengju ekki nógu hratt. En þetta mjakaðist áfram og teknar voru stórar ákvarðanir með ákveðnu millibili, stefnumótandi ákvarðanir eins og varðandi endurgreiðsluna, að stækka Kvikmyndasjóð, að styðja við tæknigreinarnar í kringum kvikmyndagreinina og eins var ákveðið að styðja við Kvikmyndaskólann.

Í það var alltaf kroppað. Ég ætla ekki að segja að kvikmyndagerðinni hafi verið rústað en hún var dregin niður. Ég tel að það sé langt í frá að henni hafi verið rústað því að hún var farin að standa það sterkum fótum og við höfum gríðarlega öfluga kvikmyndagerðarmenn og annað fólk í þessum geira. En ég held að þetta hafi verið ein af skammsýnum ákvörðunum ríkisstjórnarinnar að halda ekki áfram í þessari grein sem hefur skilað okkur miklum tekjum og mörgum störfum. Þess í stað var tekin ákvörðun um að skerða greiðslur sem búið var að semja um og síðan á að reyna að bæta það upp árin 2013 og 2014. Það verður ekki of seint, ég ætla ekki að segja það, en það er búið að skemma mikið.

Ég hvet þær stöllur til að reyna að laga þetta. Fyrstu skrefin eru sýnileg í frumvarpinu og ég fagna því sérstaklega. Ég fagna því líka sem fram kemur í meirihlutaálitinu þar sem talað er sérstaklega um málefni fatlaðra og gerð tillaga um viðbótarfjárheimild til verkefnisins Réttindagæslu fatlaðra. Tilefnið er frumvarp til laga um réttindagæslu fatlaðs fólk sem varð að lögum og tók síðan breytingum í meðförum Alþingis.

Með leyfi forseta, eins og stendur hér:

„Breytingarnar eru í meginatriðum tvenns konar: Annars vegar var hlutverk réttindavaktar ráðuneytisins aukið verulega og henni falið að bera ábyrgð á því að upplýsa almenning um réttindi fatlaðs fólks, vinna gegn staðalímyndum og fordómum og auka vitund um getu og framlag fatlaðs fólks í samræmi við ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi þess. Hins vegar var ákveðið að persónulegir talsmenn fatlaðs fólks fengju endurgreiddan útlagðan kostnað eftir nánari reglum sem útfærðar verða í reglugerð. Endurskoðun á kostnaðarmati vegna laganna var ekki tilbúin fyrir framlagningu frumvarpsins og því var ekki unnt að gera grein fyrir tillögunni fyrr en nú.“

Ég fagna því sérstaklega þessu skrefi sem hæstv. velferðarráðherra hefur lagt sig fram um að taka því að þegar málaflokkur fatlaðra var færður yfir til sveitarfélaga þurfti að huga að ýmsum atriðum, m.a. réttindagæslu, og er þetta liður í þeirri stóru breytingu að efla og styrkja alla umgjörð í kringum fatlaða. Það skiptir mjög miklu máli og ber að þakka það.

Ég vil í lok máls míns undirstrika það sem ég sagði áðan að mér finnst fjárlagafrumvarpið ekki bera vott um neinn kjark eða þor. Það er bara verið að reyna að koma þessu áfram, reyna að mjatla þetta. Meira að segja er kjarkleysið það mikið að ekki er einu sinni farið eftir efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem menn hafa í megindráttum fylgt eftir. Samkvæmt þeirri áætlun átti frumjöfnuður að vera 2011, en jöfnuður næst ekki fyrr en í fyrsta lagi 2014. Ef fram heldur sem horfir mun það seinka öllu, ekki síst ef ekki verður meiri atvinnuuppbygging í tíð þessarar ríkisstjórnar, þá munum við upplifa það aftur og aftur að Hagstofan kemur með breytta þjóðhagsspá eftir framlagningu fjárlagafrumvarpsins og sú þjóðhagsspá mun sýna fram á minni hagvöxt. Það gerist núna og það gerðist í fyrra og umbylti í raun öllum forsendum fjárlagafrumvarpsins.

Ég get ekki látið hjá líða að minnast aðeins á þær hremmingar sem ríkisstjórnin er í vegna ráðherra í ríkisstjórn. Það sem ég óttast í þessum ráðherrakapli öllum og vegna þess yfirlýsta markmiðs ríkisstjórnarinnar og talsmanna hennar — það kom fram í Kastljóssþætti í vikunni, það kom fram í hinum og þessum samtölum við bæði ráðherra og þingmenn stjórnarinnar — að meginmáli skipti að halda ríkisstjórninni saman og það verði allt gert til þess. En á meðan munu ákveðin verkefni bíða, ýmsar atvinnugreinar munu þurfa að bíða og bíða, eins og til dæmis sjávarútvegurinn sem hefur beðið og beðið. Stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum sjávarútvegsins er algjörlega óljós, þar er hver höndin upp á móti annarri, en á meðan er fjárfestingarfrost innan sjávarútvegsins, að því er ég best veit.

Menn nýta ekki tækifærin til að dytta að, gera við skip, fjárfesta í nýjum tækjum o.s.frv., sem mundi skapa mörg störf bæði fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki þannig að sú klasastarfsemi sem sjávarútvegurinn hefur byggt svo farsællega upp á síðustu 20 árum geti þrifist. Það er það sem ég óttast í öllu brölti ríkisstjórnarinnar að á endanum muni samfélagið og sjávarútvegurinn líða fyrir að allt sé gert til þess að halda ríkisstjórninni saman af því að það er markmiðið. Markmiðið er ekki endilega að gera samfélagið betra, reyna að komast áfram, nei, það er að halda ríkisstjórninni saman. Þá mun þessi grunnatvinnugrein líða fyrir það og hún verður skiptimynt á borði ríkisstjórnarinnar til þess eins að hún haldist saman. Ég óttast að á endanum verði niðurstaðan sú, ef sjávarútvegurinn skaðast enn meira en hann hefur þegar gert, að það muni hafa áhrif á það mál sem við ræðum hér sem er fjárlagafrumvarpið. Við stækkum ekki kökuna með atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar, við sköpum ekki störf, við sköpum ekki von fyrir fólkið í landinu þannig að það sjái fram á að hér verði lífvænlegt, ekki bara á næsta ári heldur um aldur og ævi.