140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[02:44]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin og fagna því að hv. þingmaður er sammála mér í því að það sé mjög mikilvægt að við búum þannig um fjárlögin að allar stofnanir fari eftir fjárlagaramma hvers árs. Það er gríðarlega mikilvægt, bæði upp á agann í ríkisfjármálunum og ekki síður út af því að það er mikið réttlætismál að mínu mati. Sumar stofnanir geta sótt í ákveðnar sértekjur og fengið jafnvel upp í nokkur hundruð milljónir umfram það sem kemur í fjárlögum, fjáraukalögum og samþykkt Alþingis á hverjum tíma. Það er engin sanngirni í því.

Það er líka mjög mikilvægt að það verði skoðað í hv. fjárlaganefnd hvernig staðið er að niðurskurðinum. Það er kannski enginn pólitískur ágreiningur um að það eigi að hlífa velferðarmálunum og heilbrigðismálunum en síðan hafa ákveðnar stofnanir fé til verklegra framkvæmda sem ná kannski hagræðingarkröfunni sem sett er á viðkomandi stofnun undir viðkomandi ráðuneyti og málaflokki, hafa tæki til að skera niður verklegar framkvæmdir en kannski ekki í yfirstjórninni. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við förum í gegnum þetta í fjárlaganefnd vegna þess að eitt af því sem hefur tafið efnahagsbatann er skortur á fjárfestingu inn í landið. Þá er mjög óeðlilegt að það sé gert með þeim hætti að ákveðnar stofnanir geta tekið framkvæmdir til hliðar en haldið yfirbyggingunni áfram á sama tíma og þessar viðkvæmu stofnanir sem ég nefndi, bæði heilbrigðisstofnanir og menntastofnanir, hafa ekki tök á að gera það. Þær þurfa að fara í skaðlegri niðurskurð, ef ég má nota það orð, og óæskilegri sem er kannski ekki í samræmi við vilja Alþingis á þeim tíma þegar fjárlögin (Forseti hringir.) eru samþykkt.