140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[02:50]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu þarf að huga að kostnaði við utanlandsferðir í opinbera geiranum eins og að öðrum kostnaðarliðum í rekstri okkar. Nú hef ég ekki skoðað þau svör sem hv. þingmaður hefur fengið við fyrirspurn sinni, en hann upplýsti aðeins um það sem þegar hefur komið fram í því efni. Ég skal ekki dæma um það bara hér og nú án þess að hafa skoðað það sérstaklega hvort þetta eru háar fjárhæðir í heildarmyndinni eða hvað. Ég veit hins vegar að á þessum vinnustað, á Alþingi, hefur í kjölfar hrunsins verið skorið talsvert niður í alþjóðastarfi þannig að það er umtalsvert minna en var að minnsta kosti á árunum fyrir hrun, hvort það er nákvæmlega með sama hætti í einstökum ráðuneytum get ég bara ekki fullyrt um.

Þrátt fyrir að mikilvægt sé að gæta aðhalds og sparnaðar á þessum liðum er ég ekki þeirrar skoðunar að við Íslendingar eigum að hætta að taka þátt í samstarfi við aðrar þjóðir. Ég vil ekki loka landinu fyrir samstarfi við aðrar þjóðir. Ég tel mikilvægt að við höldum uppi alþjóðasamstarfi. Það verður að vera markvisst. Við verðum að beina því í þann farveg og á þá staði sem við teljum að við höfum mikið gagn af og getum haft gagn af. Ég tel að við getum það að sjálfsögðu. Margar stofnanir eru í mikilvægu erlendu samstarfi, bæði með því að miðla þekkingu og afla þekkingar sem nýtist síðan í þeirra rekstri þannig að ég er almennt þeirrar skoðunar að við eigum að ástunda samstarf. Það verður auðvitað líka, bæði á þessum tímum og öðrum, alltaf að vera markvisst og miðast út frá heildarhagsmunum okkar og að sjálfsögðu verðum við að gæta aðhalds í þeim efnum eins og í öðru í (Forseti hringir.) rekstri hins opinbera.