140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:48]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það er ljóst að núverandi efnahagsstefna stjórnvalda felst aðallega í aukinni skattheimtu og niðurskurði. Við sjálfstæðismenn höfum lagt fram efnahagstillögur sem byggja á allt annarri sýn en þeirri sem núverandi stjórnarmeirihluti fylgir. Við hyggjumst þó ekki tína út einstaka liði varðandi skattbreytingar í þeim tillögum sem hér liggja fyrir um tekjugrein fjárlaga heldur lýsum okkur í öllum meginatriðum ósammála þeirri aðferð sem hér er viðhöfð.

Ég vil enn fremur nefna að engin nefndarumsögn liggur fyrir um tekjugrein fjárlaga að þessu sinni og það er mjög miður. Við gerum okkur hins vegar ljóst að ríkissjóð þarf að fjármagna og vilji er til þess hjá stjórnarmeirihlutanum að gera það eins og hér greinir. Við erum ósammála því í grundvallaratriðum og munum því sitja hjá við afgreiðslu tekjugreinar fjárlaganna.