140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:20]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég vek athygli á því að við erum að greiða atkvæði um að hækka innritunargjöld til opinberu háskólanna úr 45 þús. kr. í 60 þús. kr. Það er mín skoðun að þetta sé eðlileg leið og rökrétt að fara hana eins og sakir standa.

En ég vil þá líka vekja athygli á því að árið 2005 þegar þessi sömu innritunargjöld voru hækkuð á sömu forsendum, úr 32.500 kr. í 45 þús. kr., mætti sú tillaga mikilli mótspyrnu, ekki síst hjá núverandi hæstv. fjármálaráðherra sem barðist á móti því með kjafti — strigakjafti að mínu mati — og klóm og hið sama gilti um fleiri stjórnarþingmenn í dag. En nú er í lagi að fara þessa leið. Það er öllum ljóst að orð fara bersýnilega ekki saman við efndir þessara þingmanna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)