140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

þriðja skýrsla eftirlitsnefndar um sértæka skuldaaðlögun.

[19:09]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa góðu og málefnalegu umræðu. Mér finnst að þingmenn sýni allir mikla ábyrgð gagnvart þessu viðfangsefni.

Hv. þm. Eygló Harðardóttir sagði áðan að lögin væru fullkomið flopp vegna þess hversu fáir hefðu farið í sértæka skuldaaðlögun. Það er mikill misskilningur á eðli laga nr. 107/2009. Þau eru forsenda þess að kröfur hafa verið afskrifaðar í hundrað milljarða vís á heimili og fyrirtæki án gjaldþrota eða nauðasamninga. Það var ekki heimilt að afskrifa kröfur á heimili eða fyrirtæki nema af því þau lög voru sett. Það var aldrei markmið að allir færu í sértæka skuldaaðlögun. Sértæk skuldaaðlögun var bara ein leið sem boðið var upp á til að ná því markmiði að kröfur yrðu afskrifaðar. Markmið laganna var að afskrifa kröfur. Það hefur svo sannarlega tekist. Heildarstaðan núna á afskrifaðar kröfur á heimili og fyrirtæki nemur í kringum 1.200 milljörðum síðast þegar ég hafði þær tölur, sem var fyrir um tveimur mánuðum. Þær afskriftir hafa að stórum hluta farið fram án gjaldþrota, með öðrum orðum, vegna þess að lög nr. 107/2009 gerðu bönkum kleift að afskrifa kröfur á fólk og fyrirtæki.

Það eru einhver hin mestu öfugmæli að halda því fram að það sé flopp að hafa sett lög nr. 107/2009 þó að ekki hafi hver einasti maður farið í sértæka skuldaaðlögun. Við ætluðum til dæmis að fólk þyrfti að fara í sértæka skuldaaðlögun vegna gengistryggðra lána. Svo féllu hins vegar dómar sem gerðu það mögulegt fyrir fólk að losna undan þeim lánum án þess að fara í sértæka skuldaaðlögun o.s.frv.

Mörg af þeim málum sem hér hafa verið rakin eins og lánsveð, ábyrgðarmenn og staða bænda, eru flókin úrlausnarefni út frá eignarréttinum. Þess vegna eru þau flókin. Við munum reyna að leita lausna í þeim. Upplýsingaþátturinn sem hv. þm. Pétur Blöndal rakti áðan ágætlega er loksins að leysast. Við samþykktum áðan fjárveitingu til Hagstofunnar upp á 50 milljónir sem er upphaf að því að Hagstofan hefji núna alvörugagnaöflun um skuldastöðu heimila og fyrirtækja sem verður þriggja ára verkefni og ríkisstjórnin er búin að samþykkja fjárveitingu í það núna fyrir fyrsta árið. Það mun koma IPA-styrkur í það hvað varðar fyrirtækjaþáttinn, og við getum nú þakkað fyrir IPA-styrkina. (Forseti hringir.) Það verkefni verður til mikils góðs.

Að síðustu, ég held að mikilvægt sé að við höldum áfram þessari uppbyggilegu og góðu umræðu. Það er mikilvægt líka að velferðarnefnd haldi áfram þessu góða starfi. Hún getur skoðað (Forseti hringir.) hvaða umgjörð hún treystir sér að hafa varðandi Íbúðalánasjóð alveg eins og hún gerði á sínum tíma. Mér finnst miklu máli skipta að tekið sé með þverpólitískum hætti á grundvallarumgjörð þessara mála.