140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil fjalla um málefni St. Jósefsspítala m.a. vegna umfjöllunar Fréttatímans í dag en hún sýnir að mínu mati enn og aftur hversu illa ígrunduð og vanbúin sú ákvörðun var að loka St. Jósefsspítala. Það er ekki búið að kortleggja neitt hvernig framhaldið var á heilbrigðisþjónustunni sem veitt var þar og svo margt fleira. Ég ítreka enn og aftur að það var vond ákvörðun og illa ígrunduð en það kallar á mun lengri umræður en bara tvær mínútur í púlti.

Ég vil, vegna orða formanns fjárlaganefndar annars vegar og hins vegar vegna orða 1. varaformanns fjárlaganefndar um fangelsismál og fangelsisbyggingar, segja að í mínum huga er ljóst að fara þarf betur yfir uppbyggingu fangelsismála varðandi uppbyggingu á Hólmsheiði, varðandi framtíð kvennafangelsis o.s.frv. Ég held að það þurfi ekki bara að fara yfir það fjárhagslega heldur líka faglega og það þarf að gera áður en hv. fjárlaganefnd lýkur umfjöllun sinni um fjárlagafrumvarpið fyrir 3. umr. Þess vegna mun ég sem nefndarmaður í allsherjar- og menntamálanefnd óska eftir því að sú nefnd komi saman áður en fjárlaganefndin lýkur afgreiðslu sinni á fjárlögum til að fara betur yfir málið. Ég greini enn og aftur ágreining meðal stjórnarliða í þessum málum eins og svo mörgum öðrum. Með fullri virðingu fyrir hæstv. innanríkisráðherra og ágætum embættismönnum innan kerfisins tel ég engu að síður að málið sé þannig búið að við þurfum að fara betur yfir málið til að horfa á fangelsismál í heild sinni og til lengri tíma. Þess vegna fer ég fram á þennan fund í allsherjar- og menntamálanefnd.