140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

störf þingsins.

[11:03]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar þingmenn langar til að láta á sér bera í fjölmiðlum, t.d. í eins og einnar mínútu innslagi í útvarpi eða umfjöllun í vefmiðlum, er eitt ráð algjörlega óbrigðult og það er að móralísera um það hversu ómögulegt þingið sé og þingmennirnir afleitir og gera það á kostnað starfsbræðra sinna. Þetta hefur reynst algjörlega óbrigðult og þeir sem hafa notað þetta ráð hafa alltaf komið nafni sínu á framfæri í fjölmiðlum. Ég geri ráð fyrir að það hafi verið tilgangur hv. þm. Þráins Bertelssonar áðan. Hann hafði uppi svona móralíseringar gagnvart okkur öðrum þingmönnum og tölti svo út úr þingsalnum eins og hinn besti vekringur eftir að hafa komið þessu sjónarmiði sínu á framfæri.

Ég tek hins vegar undir það með hv. þingmanni að við eigum að reyna að forðast stóryrði og fúkyrði. Þarna virtist mér hv. þingmaður setja sig í spor gömlu marxistanna sem ástunduðu skipulega sjálfsgagnrýni. Ég ætla að fullyrða að enginn hv. þingmaður hefur komist með tærnar þar sem hv. þm. Þráinn Bertelsson hefur hælana þegar kemur að fúkyrðum og stóryrðum. Ég gæti nefnt ýmis dæmi um það, bæði úr ræðustóli Alþingis og ekki síður í ógeðslegum frammíköllum hans stundum þegar þingræður hafa verið fluttar. Það sem hv. þingmaður gerði var að kveinka sér undan því að rædd væru óþægileg mál fyrir ríkisstjórnina. Við vitum að ríkisstjórnin er óstarfhæf þessi dægrin vegna innbyrðis deilna sem snúast um að gera tilteknar breytingar á ríkisstjórninni. Þá er það rangt sem haldið hefur verið fram úr ranni VG að þetta sé einkamál þess flokks sem eigi að útkljá í reykfylltum bakherbergjum flokksins, það er óhjákvæmilegt að þetta mál komi hér til umræðu vegna þess að það hefur (Forseti hringir.) bein áhrif á landsstjórnina og hvernig ríkisstjórnin er gjörsamlega vanbúin til að takast á við verkefni sín.