140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

306. mál
[14:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, með síðari breytingum. Það er undantekning frá hefðbundnum skattalögum og reglum um álögur fyrir atvinnugreinarnar. Ég er þar af leiðandi á móti þessu og hef alltaf verið vegna þess að það á ekki að vera þingmanna eða ráðuneytis að meta hvaða atvinnugreinar eru arðbærar og hverjar eiga rétt á sér, ekki kvikmyndagerð frekar en annað. Það er mjög margt sem hægt er að gera á Íslandi. Við getum til dæmis farið að veita skattafslátt fyrir ferðaþjónustu á veturna sem gæti verið afskaplega skynsamlegt og sennilega enn arðbærara en þetta, vegna þess að þar er verið að nýta fjárfestingu sem ekki er nýtt á veturna og það er mjög óarðbært. Allar svona undantekningar koma niður á öðrum greinum.

Síðan er má benda á það í þessu samhengi að við erum að skera niður til dæmis í starfsemi bæði skóla og heilbrigðisstofnana á sama tíma og það minnkar að sjálfsögðu getu ríkisins til að standa við það. Mér skilst að ríkissjóð vanti aur þessa dagana og þurfi víða að skera niður og hækka skatta á atvinnugreinar sem ekki njóta svona forréttinda.

Það er eitt sem ég vildi koma inn á í þessu sambandi. Þann 9. ágúst síðastliðinn birtist viðtal við hv. þm. Þráin Bertelsson. Þá setur hann skilyrði fyrir stuðningi við fjárlögin og segir beint út að verði kvikmyndagerð ekki styrkt og ekki leyst úr fjárhagsvanda Kvikmyndaskóla Íslands á sanngjarnan hátt, muni hann ekki styðja fjárlögin. Ég veit ekki hvernig maður á að skilja þess háttar yfirlýsingar. Það var í ágúst þegar fjárlögin voru í smíðum. Nú kemur í ljós að framlög til kvikmyndagerðar eru aukin mjög víða í frumvarpinu. Er samasemmerki þarna á milli, vegna þess að ríkisstjórnin stendur mjög tæpt? Hvað gerist ef fleiri stjórnarliðar setja slík skilyrði fyrir atkvæði sínu? Þá gætu fjárlögin orðið ansi götótt, sérstaklega ef menn yrðu stórtækari en þetta í því að verðmeta stuðning sinn.

Mig setti hljóðan þegar ég las þessa frétt og vona að það sé ekki og verði nú ekki reglan í stuðningi við fjárlagafrumvarpið og að slíkt sé ekki að finna annars staðar í fjárlögunum.

Það er annað sem ég vildi gjarnan ræða. Ef menn ætla sér á annað borð að styðja svona aðgerð er það dálítið ankannalegt að þegar endurgreiða á kostnað eða skatta sem ríkið tekur sé sett þak á endurgreiðsluna, vegna þess að væntanlega er þetta tekjur í ríkissjóð. Þetta eru viðskipti sem koma frá útlöndum. Eftir því sem umsvifin eru meiri, þeim mun meiri verða tekjur ríkissjóðs. Þess vegna er ankannalegt að setja þak á endurgreiðsluna sem er þá um leið þak á tekjurnar.

Ég hef reyndar ekki séð það og orðin er breyting á gjaldinu frá því sem upphaflega var en ekki er verið að endurgreiða skatta eða tekjur ríkissjóðs af þessari atvinnugrein, heldur er verið að endurgreiða kostnað innan lands. Þá er það orðinn hreinn og klár stuðningur við greinina og ekki lengur um það að ræða að ríkissjóður hafi tekjur sem hann endurgreiðir svo til viðkomandi atvinnugreinar. Þar af leiðandi á ekki við að setja þak á gjöldin sem er um leið þak á tekjurnar, eins og áður sagði.

Hv. nefnd sem fær þetta til skoðunar mun væntanlega skoða hvaða samhengi er á milli þeirra tekna sem ríkissjóður hefur í heild sinni af þessari atvinnugrein og hvort þær tekjur eru ekki örugglega hærri en gjöldin sem verið er að endurgreiða.

Ég stóð lengi vel í þeirri meiningu, og ég held að þannig hafi það nú verið hugsað upphaflega, að þarna væri verið að endurgreiða skatta, en hér kemur fram að verið er að endurgreiða kostnað, þ.e. hugsanlega miklu meira en skattana.

Ég er í meginatriðum á móti svona löguðu. Ég tel að ríkissjóður eigi frekar að létta á öllum fyrirtækjum og mætti gjarnan gera það með þessum hætti, það mundi nú aldeilis verða vítamínsprauta í atvinnulífið og er þá jafnræði tryggt á milli fyrirtækja. Það er mjög ankannalegt að maður sem ætlar að fara út í eitthvað sniðugt í ferðaþjónustu og þarf að taka áhættu, að hann þurfi að borga fulla og síhækkandi skatta á meðan annar sem ætlar að búa til kvikmynd fái hluta af framleiðslukostnaðinum endurgreiddan. Ég hugsa að margur atvinnuvegurinn mundi gjarnan vilja vera í þeirri stöðu, frú forseti.