140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

256. mál
[15:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þetta frumvarp hefur verið rætt nokkrum sinnum eða alla vega flutt áður þannig að umræðan hefur að vissu marki átt sér stað. Þetta eru að sjálfsögðu tryggingar, það er verið að tryggja fólk fyrir útgjöldum, of miklum útgjöldum, þannig að það nær ágætlega því markmiði gagnvart lyfjakostnaði heimila.

Ég vil byrja á því að tala um börnin. Mér finnst kerfið sem hér er sett upp, um að börn í sömu fjölskyldu skuli talin sem einn einstaklingur, jákvætt ef fólk á mörg börn en það er ekki jákvætt ef um er að ræða hjón með eitt barn. Þá teljast þau sem þrír einstaklingar og geta lent í því að borga þrisvar sinnum 45 þús. kr. og meira að segja þrisvar sinnum 68 þús. kr., ef ég man rétt, sem er umtalsverður kostnaður fyrir eina fjölskyldu. Sérstaklega þar sem þetta gæti allt fallið til á einum eða tveimur mánuðum ef fjölskyldan veikist öll í einu, sem gerist oft bæði vegna smithættu innan fjölskyldu og annars. Það er ákveðin samtenging þarna á áhættunni og því gæti þetta allt fallið til á einum mánuði og verið nánast óbærilegt.

Ég held að hv. nefnd ætti að skoða þetta með börnin, hvort ekki væri betra að tengja þau við foreldrana og jafnvel hækka mörkin eitthvað þannig að þetta hafi meira ígildi tryggingar fyrir fjölskylduna en ekki endilega fyrir einstaklinginn.

Þegar rætt er um að alls konar annan kostnað, sem er umtalsverður í öllu heilsukerfinu, er greiðsluþátttakan í heild sinni 17% ef ég man rétt, 30% í lyfjum, en í heild greiða sjúklingar 17%. Það er á ýmsu formi. Þetta eru flutningar, sjúkraflutningar, blóðsýni og rannsóknir, tæki og skannar, ómtæki og annað slíkt sem kostar. Svo eru það heimsóknir til sérfræðinga. Hver heimsókn kostar sitt og er greitt fyrir slíkt í dag með mismunandi hætti sem enginn skilur, alla vega ekki ég. Ég skil það ekki, ég hef spurst fyrir um það nokkrum sinnum, það er alltaf jafnfróðlegt þegar maður byrjar að hræra upp í kerfinu en maður hættir því nú fljótt.

Það sem er jákvætt í þessu líka, fyrir utan það að reglugerðin liggur þarna fyrir, er lyfjagagnagrunnurinn. Mér skilst að í dag geti fólk fengið lyf frá tveimur eða fleiri læknum, jafnvel ótal mörgum læknum, og lyf sem hugsanlega geta verið mjög skaðleg ef þau eru tekin saman, og hver læknir veit ekki hvað hinn er að gefa. Þetta getur náttúrlega verið bráðhættulegt og getur jafnvel leitt til dauðsfalla vegna þess að öll lyf hafa aukaverkanir og þau geta líka haft mjög skaðlegar verkanir séu þau notuð saman. Hér er verið að taka á þessum vanda, ég vona að hann sé leystur að því leyti að læknir sem ávísar lyfi viti hvaða lyf sjúklingur hans hefur verið að taka jafnframt frá öðrum læknum. Þetta er mjög jákvætt. Svo fær fólk líka að vita hvað það hefur fengið af lyfjum. Ég held að þetta sé mjög jákvætt.

Mér finnst stundum, frú forseti, að persónuverndin sé komin út í öfgar, þegar hún er farin að beinast gegn einstaklingnum sjálfum sem á persónuupplýsingarnar. Það er orðið dálítið skrýtið ef maður getur ekki fengið upplýsingar um sjálfan sig. Mér skilst að það sé þannig í dag að á sumum sviðum geti menn ekki fengið upplýsingar um sjálfa sig, sem mér finnst alveg grundvallaratriði, því að hvern er verið að verja í persónuvernd nema persónuna sjálfa? Hún hlýtur að mega vita hvað um hana hefur verið skrifað eða hvað er geymt um hana.

Ég held ég hafi þetta ekki mikið lengra. Það sem mætti skoða ef menn fara að taka allt heila kerfið eru tannlækningar, að taka þær inn í það, kannski ekki að fullu en mér finnst þurfa að skoða það. Þetta er óskaplegur biti, eins og tannréttingar barna sem oft og tíðum eru læknisfræðilega nauðsynlegar, stundum ekki, stundum eru þær fegrunaraðgerðir sem geta líka verið sálfræðilega nauðsynlegar. Það er ekki gaman að vera með skakkt bit, sérstaklega fyrir unglinga sem eru viðkvæmir fyrir því. Þannig að fegrunaraðgerð hjá þeim getur verið læknisfræðilega nauðsynleg af sálfræðilegum ástæðum.

Ég vildi gjarnan að menn skoðuðu tannlækningar því að tannheilsa íslenskra barna er mjög slæm og fer versnandi að mér skilst. Hér er mikil sykurneysla og það væri fróðlegt að skoða þessi sykurfíkn. Mér finnst að Lýðheilsustöð ætti að berjast gegn henni og vonandi með jafngóðum árangri og þegar hún barðist gegn tóbaksreykingum sem skilaði ótrúlega góðum árangri, því að reykingar hafa minnkað mikið hjá yngra fólki. Það er mjög jákvætt og sýnir að hægt er að gera hlutina með því að höfða til skynsemi fólks frekar en með boðum og bönnum og sköttum og tollum.

Hér er tekið upp danska kerfið. Það hefur kosti og galla. Gallinn er sá að menn geta lent í óverulegum lyfjakostnaði, lyf sem kostar 500 kall, og þá fer hann að tikka. Í lok tímabilsins geta menn lent í miklu áfalli, fara kannski í þetta hámark sem er 60 þús. kall, jafnvel þrír í fjölskyldunni og þá getur þetta orðið 180 þús. kall. Ef sjúkdómurinn heldur áfram inn í næsta mánuð geta menn verið að borga tvöfalt á örstuttum tíma út af sama sjúkdómi í rauninni og lenda í því að borga mjög háar upphæðir. Ef þetta er þriggja manna fjölskylda, hjón með eitt barn, sem lendir t.d. í bílslysi, sem er tengd áhætta, og öll mikið veik í kjölfarið, slösuð, og hafa kannski fengið kvefpest 11 mánuðum áður þá byrjar tímabilið að tikka. Þá lenda þau öll í hámarki á þessum eina mánuði og í framhaldinu, ef sjúkdómurinn heldur áfram í næsta mánuði, borga þau aftur 180 þúsund. Þetta geta orðið 360 þús. kr. fræðilega séð á einungis tveimur mánuðum sem getur verið ansi mikill biti fyrir eina fjölskyldu.

Þetta eru ókostir sem eru þekktir við danska kerfið. Ég vildi bara koma þeim að þannig að fólk viti af því.

Það er ekki rétt að þetta kerfi auki ekki kostnaðarvitund, því að það eykur vissulega kostnaðarvitund. Fram að því að menn ná þessu hámarki, upp að 25 þús. kr. eða hvað það er, borga þeir að fullu, og ef menn kaupa lyf á þeim tíma skiptir verulegu máli hvort lyfið kostar 10 þús. kall eða 5 þús. kall. Þá munu menn segja — vonandi, ef kostnaðarvitundin er nógu sterk, það sem hefur kannski vantað hjá þessari þjóð er kostnaðarvitund yfirleitt — við lækninn: Heyrðu, ég ætla bara að fá fimm töflur hjá þér af því ég ætla að athuga hvort ég þoli þetta og svo kem ég aftur og fæ fimm töflur í viðbót. Þessar fimm töflurnar mundu þá kannski kosta þúsundkall í staðinn fyrir 5 þús. kall sem sjúklingurinn mundi borga allar til að byrja með, í byrjun tímabilsins. Þetta er vissulega mjög kostnaðarhvetjandi að þessu leyti. Og fyrir þá sem lenda aldrei í hámarkinu er þetta mikil kostnaðarvitund. Það er vonandi rjóminn af þjóðinni sem lendir ekki í hámarkinu. Þetta kerfi mun vissulega hvetja fólk til þess að eyða ekki peningum í þetta frekar en annað. En þá komum við að hinni almennu kostnaðarvitund þjóðarinnar.