140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

sjúkratryggingar.

359. mál
[15:54]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég heyri að hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir lýsir yfir vonbrigðum sínum með að þetta skuli ekki hafa náðst á þessu ári. Ég vek þó athygli á því að tillagan eins og hún var lögð fram fyrir ári var til þriggja ára af því að menn ætluðu sér lengri tíma, en það varð samkomulagsatriði að við mundum taka ár í þetta og reyna á þeim tíma að átta okkur á því hvernig við gætum náð þessu. Það má segja að við endurtökum það núna, svo því sé haldið til haga.

Það er alveg rétt að tilfærsla málefna aldraðra til sveitarfélaga er ekkert einfalt mál, en sá nýi hópur sem vinnur nú í þeim málaflokki reynir að aðskilja þjónustu sem fer inn á hvert heimili og síðan sjúkraþjónustu. Þessar tegundir þjónustu þarf að greina að og þar þurfa miklu fleiri að koma að í stefnumótuninni og allri undirbúningsvinnunni en Sjúkratryggingar Íslands. Það er því ekki aðeins spurning um formið, að sjúkratryggingar geti tæknilega ráðið við þetta. Þó verður að geta þess að til að fullnusta það sem lagt var af stað með þegar ákvörðun um Sjúkratryggingar Íslands var tekin 2007, þá var reiknað með að færa þangað til starfsmenn bæði frá landlækni og ráðuneyti og það hefur ekki verið gert. Ég viðurkenni það hreinskilnislega og það hefur komið fram áður að við höfum verið að meta stöðu Sjúkratrygginga Íslands af því að við höfum ekki haft mikið svigrúm til að bæta við þjónustuna og endurmeta rekstur stofnunarinnar. Sú vinna er enn þá í gangi þannig að ég tel rökrétt að við reynum að fresta þessu um eitt ár til að fá frekara svigrúm til að búa til þá umgjörð sem við viljum að verði varðandi samninga, eins til að gera heilbrigðisáætlun og stefnumótun í málaflokknum áður en menn færa samningana yfir til tæknilegs aðila.