140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

breytingar á ráðuneytum.

[15:11]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég met hv. þm. Birgi Ármannsson mikils en ekki er svo komið enn að ég hafi gert hann að sérstökum ráðgjafa mínum í þessum málum, og jafnvel þó svo væri mundi ég haga samráðinu við hann með öðrum hætti en að ræða það úr ræðustóli á Alþingi.

Satt best að segja hefur umræðan um þessi mál undanfarna daga farið alveg í lægstu lægðir að mér finnst, þegar á grundvelli getgátna og orðróms er rætt um viðkvæm og vandasöm mál, hvort sem það snýr að nafngreindum einstaklingum eða því hvernig menn sjá fyrir sér breytingar á Stjórnarráði Íslands til framtíðar litið. Hvorugt á erindi í málefnalegar alvöruumræður á þeim nótum sem það hefur verið rætt undanfarið.

Mér finnst það líka lítilsvirðandi fyrir aðra stuðningsmenn stjórnarflokka þegar umræðan er öll lögð upp þannig að það séu eingöngu ráðherrar sem skipti máli í þeim efnum. Það er lítilsvirðing við þingið allt þar sem menn í þingnefndum og annars staðar gegna mikilvægum trúnaðarstörfum sem eru jafnmikilvæg í pólitík í sjálfu sér. Það skiptir ekki sköpum í mínum huga hverjir veljast til ráðherrastarfa, hverjir í formennsku þingnefnda, í formennsku þingflokka, í forsætisnefnd eða annars staðar. Mér finnst að við stjórnmálamenn ættum frekar að sameinast um að reyna að hafa umræðuna þannig að einhver smámannsbragur sé að því og hún sé málefnaleg en ekki rekin í skotgrafagetgátuorðrómsstíl.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um fyrirkomulag efnahagsmála þá var engin deila um að mikil þörf væri á því að endurskipuleggja og styrkja okkur á því sviði. Það stendur ekkert annað til og engin áform eru um neitt annað en að þeim málum, eins og öðrum, verði skipulega og vel fyrir komið innan Stjórnarráðsins þannig að brugðist sé meðal annars við þeim veikleikum sem hrunið leiddi í ljós (Forseti hringir.) og greiningar síðan hafa sýnt fram á, og að við höfum styrka stjórn á ríkisfjármálum, efnahagsmálum, atvinnumálum og öðrum þeim þáttum sem fóru úrskeiðis á sínum tíma.