140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

staða framhaldsskólanna.

[15:58]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir það frumkvæði sem hér er sýnt við að taka upp málefni framhaldsskólanna. Við höfum ályktað um þau hjá Framsóknarflokknum og þar höfum við sérstaklega lýst áhyggjum af því hve mikið brottfallið er úr framhaldsskólunum, sérstaklega meðal drengja.

Mig langar að nýta tækifærið hér og spyrja hæstv. menntamálaráðherra aðeins út í reiknilíkanið sem framhaldsskólar fá greitt eftir. Það er svolítið sérkennilegt af því að það kemur illa út fyrir þá skóla sem bjóða upp á fjölbreytt nám og sinna þeim sem standa verst. Ég vil nefna þessa skóla hér af því að mér skilst að framhaldsskólarnir fái úthlutað eftir því reiknilíkani hversu margir fara í próf sem er mjög misjafnt. Næstum því allir nemendurnir í MR, MA, Versló, MH, MS og Kvennaskólanum fara í próf en lægra hlutfall í skólum eins og FÁ, FB og Borgarholtsskóla. Þar er nemendasamsetningin þannig að fleiri hætta og fara þá ekki í prófin. Mér skilst að í einum þessara skóla hafi fyrstu mánuðina eftir að skólinn hófst einn hætt á hverjum degi þannig að yfir 70 manns voru hættir á mjög stuttum tíma í upphafi þegar mér var kynnt þessi staða.

Ég spyr hæstv. menntamálaráðherra: Stendur til að skoða eitthvað þetta reiknilíkan þannig að skólum verði ekki refsað þegar lægra hlutfall nemenda fer í próf? Þetta er ekki skólunum að kenna, nemendasamsetningin er svona. Þessir skólar bjóða upp á nokkuð fjölbreytt nám þannig að þetta er óheppilegt.

Svo vil ég líka spyrja hvort hæstv. ráðherra íhugi að láta fara fram einhvers konar stöðumat á Nám er vinnandi vegur. Mér skilst að það vanti svolítið upp á að atvinnulífið taki þátt í verkefninu, en það væri betra að það tæki þátt í því þannig að það væri blanda af námi og vinnu (Forseti hringir.) fyrir það unga fólk sem er í verkefninu.