140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

fjármálalæsi.

155. mál
[16:11]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Eins og fram kom í máli hv. þingmanns skipaði þáverandi viðskiptaráðherra Björgvin G. Sigurðsson nefnd á árinu 2008 til að kanna stöðu fjármálalæsis hér á landi og hún skilaði skýrslu í febrúar 2009.

Í úrvinnslu þeirra tillagna á vettvangi ráðuneytisins hefur verið lögð áhersla á eftirfarandi:

Í fyrsta lagi, í samræmi við tillögu nefndarinnar um að stjórnvöld tryggi neytendum hlutlausar og aðgengilegar upplýsingar um lánveitingar, hefur verið lagður grunnur að lagabreytingum ákvæða í lögum um neytendalán. Í sumar skipaði ég nefnd um innleiðingu á tilskipun nr. 48/2008/EB um neytendalán og henni er ætlað að skila drögum að frumvarpi fyrir næstu áramót og á þingmálaskrá ráðuneytisins er nýtt frumvarp til laga um neytendalán sem gert er ráð fyrir að verði flutt á vorþingi. Í tilskipun þeirri sem ætlunin er að innleiða með frumvarpinu er kveðið á um aukna upplýsingaskyldu lánveitenda við lántökur og skýrari reglur um upplýsingar í auglýsingum. Þá er kveðið á um það nýmæli að lánveitandi skuli með eðlilegum fyrirvara veita neytanda nauðsynlegar upplýsingar til að hann geti borið saman ólík tilboð og tekið upplýsta ákvörðun áður en hann er bundinn af lánasamningi eða tilboði.

Í annan stað var í skýrslu nefndarinnar lögð fram sú tillaga að fjármálafyrirtækin hvetji starfsmenn til endurmenntunar á þessu sviði. Ráðuneytið undirritaði 8. september síðastliðinn samning um vottun fjármálaráðgjafa í samstarfi við Háskólann á Bifröst, viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja og Samtök fjármálafyrirtækja. Markmiðið með vottuninni er að samræma þær kröfur sem gerðar eru til þeirra þjónustufulltrúa viðskiptabanka og sparisjóða sem eiga aðild að Samtökum fjármálafyrirtækja og sinna fjármálaráðgjöf til einstaklinga.

Í lok september hófst síðan nám til undirbúnings vottunar fjármálaráðgjafa sem fer fram í Opna háskólanum í Reykjavík og er áætlað umfang námsins 160–180 kennslustundir.

Í þriðja lagi lagði nefndin til að stjórnvöld mundu boða til átaks eða opinberrar umræðu í samvinnu við fjölmiðla, samtök og stofnanir um nauðsyn þess að auka færni einstaklinga á öllum aldri í að lesa í fjármál og nálgast hlutlausar upplýsingar. Ráðuneytið hefur með ýmsu móti hvatt stofnanir og samtök til að bæta læsi almennings á fjármál. Ber þar helst að nefna aðkomu ráðuneytisins að velheppnaðri ráðstefnu sem haldin var í Þjóðmenningarhúsinu 9. september síðastliðinn á vegum Stofnunar um fjármálalæsi en ráðuneytið kom þar að undirbúningi og veitti styrk til þeirrar ráðstefnu. Meginmarkmið hennar var að vekja máls á fjármálalæsi og hvetja stofnanir og samtök til að stuðla að bættri þekkingu á fjármálum svo að neytendur geti tekið upplýstari ákvarðanir um fjármál sín.

Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga að efnahags- og viðskiptaráðuneytið fer með neytendalán samkvæmt lögum nr. 121/1994, en öryggi og réttindi neytenda í viðskiptum heyra nú undir innanríkisráðuneytið. Sumar af þeim tillögum sem lagðar eru fram í skýrslunni heyra því undir það ráðuneyti. Frekari umfjöllun um verkaskiptingu á sviði neytendamála í Stjórnarráðinu held ég að sé óhjákvæmileg og ég tel að margt mæli með því að neytendamálin séu öll á einum stað.

Í annan stað er spurt hvort ráðuneytið hafi markað stefnu um hvernig vinna beri að bættu fjármálalæsi meðal almennings. Ráðuneytið hefur ekki markað sérstaka stefnu um það en, eins og hér hefur verið greint, vakið með beinum og óbeinum hætti máls á því við þá sem vinna með fjármál heimilanna að huga rækilega að þessum þætti.

Miklar breytingar hafa orðið á regluumhverfi fjármálamarkaða á undanförnum missirum og svo miklar að það er óhjákvæmilegt að bíða eftir að rykið setjist eftir allar þær breytingar áður en stefna er mörkuð fram í tímann. Sett hefur verið á fót embætti umboðsmanns skuldara sem veitir fólki ráðgjöf í greiðsluvanda og búin hafa verið til fjölmörg úrræði sem öll hafa það að markmiði að auka mjög verulega tapsáhættu fjármálafyrirtækja í rekstri. Af því leiðir að óhjákvæmilega verða miklar breytingar á umgjörð fjármálamarkaðarins og starfsumhverfi fjármálafyrirtækja í framtíðinni og þau standa frammi fyrir því að mun auðveldara verður fyrir fólk að komast undan skuldbindingum sem það ræður ekki við en verið hefur hingað til.

Ég er þeirrar skoðunar að tengja megi hið litla fjármálalæsi á Íslandi við þá staðreynd að mjög erfitt hefur verið fyrir fólk að komast undan skuldbindingum þannig að enginn hefur þurft á því að halda að uppfræða fólk sérstaklega mikið um umfang þeirra skuldbindinga sem fólk hefur tekist á hendur vegna þess að auðvelt hefur verið fyrir kröfuhafa að innheimta kröfur og fólk hefur átt mjög erfitt með að komast undan þeim. Núna, þegar þeirri umgjörð hefur verið breytt, er óhjákvæmilegt að fjármálafyrirtækin finni hjá sér meiri hvata til að fræða fólk um fjármál og þurfi að standa fyrir (Forseti hringir.) upplýstara vöruframboði til að lágmarka eigin tapsáhættu.