140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

fjármálalæsi.

153. mál
[16:40]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Magnús Orri Schram) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmanni fyrir ræður þeirra. Við erum sammála um mikilvægi fjármálalæsis og ég tek undir með ráðherra, ég vænti mikils af starfi þess stýrihóps sem hún hefur skipað og við sjáum vonandi afrakstur þeirrar vinnu fyrr en síðar.

Það er ljóst að í skólum víða um heim horfa menn á fjármálalæsi og reyna að miðla upplýsingum til nemenda með fjölbreyttari hætti en gert hefur verið, til dæmis með tölvuleikjum, myndefni og handbókum sem samdar eru í samvinnu við stjórnvöld og af fjármálafyrirtækjum, hagsmunasamtökum eða opinberum stofnunum. Kannski munum við sjá slíkan afrakstur af vinnu stýrihópsins.

Ég er hér með bók sem einkaaðili, Fjármálaskólinn.is, hefur tekið saman. Bókin heitir Hvað kosta ég? og fjallar um fjármál fyrir ungt fólk og ég veit að farið er að kenna þessa bók víða í barna- og grunnskólum landsins. Það er því mikil þróun á þessu sviði og þess vegna vænti ég mikils af því að við munum á næstu missirum bæta til mikilla muna fjármálalæsi hér á landi. Ég held að mikilvægi eflingar fjármálalæsis hafi aldrei verið meira en einmitt nú. Við getum spurt okkur hversu stóran þátt skortur á fjármálalæsi hafi átt í því efnahagshruni sem hér varð en ég held að við getum verið sammála um að bæta verður fjármálalæsi með þeirri uppbyggingarvinnu sem fram undan er á öllum sviðum og þar á meðal á sviði menntunar ungs fólks.