140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

störf þingsins.

[11:03]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ræða nokkra hluti. Fyrst vil ég minnast á nokkuð sem tengist beint höfuðborginni okkar og það er Kolaportið. Það hefur gætt borgina lífi og er afskaplega mikilvægur hluti af henni, en samkvæmt fréttum á að loka því í 18 mánuði, þvert á það sem lofað var, í tengslum við byggingarframkvæmdir við Tollhúsið. Ég hvet hv. þingmenn sem haft geta áhrif á hæstv. fjármálaráðherra að beita sér fyrir því að þessum málum verði hagað öðruvísi.

Síðan vil ég ræða skattamálin, fjárlögin. Ég vek athygli virðulegs forseta á því að í þingsköpum segir um fjárlaganefnd, með leyfi forseta:

„Nefndin veitir efnahags- og viðskiptanefnd umsögn um þingmál er varða tekjuhlið fjárlaga.“

Það stendur í þingsköpum. Ég er í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og við höfum ekki fengið neina umsögn frá hv. fjárlaganefnd. Ég vek athygli á því að það á að ganga frá fjárlögunum á morgun, fjárlögum þar sem er ekki búið að ræða um tekjuhliðina svo neinu nemi. Það er þó ljóst að skattar munu hækka á alla einstaklinga sem eru með 217 þús. kr. og meira í mánaðarlaun en menn vita ekkert hvaða afleiðingar skattbreytingar munu hafa, hvort sem það er viðbótarlífeyrissparnaðurinn eða sérstaki eignarskatturinn sem kallaður er auðlegðarskattur. Það hefur ekkert verið fjallað um það, í það minnsta ekki í efnahags- og viðskiptanefnd, og við erum ekki búin að fá umsögn frá hv. fjárlaganefnd um þann þátt málsins. Ég vek athygli á því að menn ætla að ganga frá þessu á morgun.

Að endingu vil ég vekja athygli á því að hæstv. velferðarráðherra ætlar að svíkja það samkomulag sem hann gerði við gerð fjárlaga fyrir ári síðan og snýr að lögum um Sjúkratryggingar Íslands. Mér þykir það afskaplega leiðinlegt. (Forseti hringir.) Þessi vinnubrögð hljóta að koma til umræðu á þinginu.