140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[12:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að um tíma voru til umræðu í nefndinni mál varðandi of hátt reiknaða húsaleigu þriggja heilbrigðisstofnana. Þau fjárframlög sem hér um ræðir hafa ekki með þetta gera en þegar farið var dýpra ofan í saumana á húsaleigumálunum varð niðurstaðan sú að skoða þyrfti þau sérstaklega og fara betur yfir þau hjá velferðarráðuneyti og fjármálaráðuneyti. Í þessari upphæð, 77 millj. kr., eru ekki fjármunir til að mæta kostnaði vegna húsaleigu þessara stofnana.

Nú er gerð niðurskurðarkrafa til heilbrigðisstofnana í frumvarpinu. Sú niðurskurðarkrafa stendur en í 2. umr. frumvarpsins var dregið úr henni. Þessar 77 milljónir eru til þess ætlaðar að gefa ráðuneytinu svigrúm til að fara yfir það með stofnunum hvort hluti af aðhaldskröfunni sé óraunhæfur eða hvort lengri tíma þurfi til að mæta henni. Potturinn er því hugsaður á sama hátt og á yfirstandandi fjárlagaári, þ.e. honum er ætlað tryggja að stofnanir þurfi ekki að hætta við þjónustu sem er mikilvæg grunnþjónusta á viðkomandi svæði. Þetta er öryggisventill gagnvart hinu viðkvæma heilbrigðiskerfi.

Ég held líka að mikilvægt sé, eins og við ræddum í nefndinni, að við köllum velferðarráðuneytið á fund okkar nokkuð fljótlega og förum yfir það hvernig það hefur úthlutað úr potti yfirstandandi árs og hvernig það hyggist beita honum á komandi ári og hafa eftirlit með því.