140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[12:36]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þessa skýringu og lýsi yfir ánægju með hana að því leytinu til að ætlunin sé að merkja þetta fé til að taka á þeim vandamálum sem kunna að koma upp á ýmsum stofnunum í tengslum við þær hagræðingaraðgerðir sem fyrir þeim liggur að svara og bregðast við. En húsaleigubótamálið, ef við getum sagt sem svo, vekur engu að síður upp spurningar og stendur eftir óleyst. Umræðan á svæðunum snerist líka um að þetta yrði væntanlega bætt í gegnum fjárauka. Það kann vel að vera en það kemur þá upp síðar. Ég hefði þó talið eðlilegra að mæta því strax í fjárlögum ef ætlunin er að taka á þessum þætti. Ef við tökum þann póst líka erum við farin að nálgast ansi mikið tillögu þá sem 1. minni hluti fjárlaganefndar flytur, eins og ég skil að minnsta kosti orð hv. formanns fjárlaganefndar. En þetta er þá verkefni sem bíður úrlausnar og ég lýsi því yfir að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd eru reiðubúnir til að taka þátt í þeirri vinnu.

Við í fjárlaganefndinni ræddum líka annað atriði sem tengist þessum stofnunum en skildum við það án þess að geta lokið því. Það lýtur að uppgjöri á rekstrarniðurstöðu stofnana þar sem sums staðar hefur tekist að safna í örlítinn sjóð en aðrar eru skildar eftir með halla. Að mínu mati er mismunandi hvernig farið er með þetta og ég kalla eftir því hvort hv. formaður sé ekki sammála þeirri skoðun minni að fara beri til þessa verkefnis á þann hátt að stofnunum verði ekki mismunað eins og mér þykir stefna í, þ.e. eins og ég skil tillöguna; að þeim sem hafa tekið sig á í rekstrinum og náð að safna í einhvern smávarasjóð sé hegnt, en hinum sem hafa kannski unnið áfram í trausti þess að fá þetta bætt síðar er hlíft. Það birtist í því að sá hallarekstur sem þær standa í er frystur.

Ég ítreka að ég fagna þeim tillögum sem hér koma fram og lýsi því jafnframt yfir að í þeirri vinnu sem fram undan er ber að skoða betur tillögugerðina sem okkur var kynnt (Forseti hringir.) í fjárlaganefndinni því að við erum komin töluvert á skjön við þá tillögu sem velferðarráðuneytið (Forseti hringir.) kynnti okkur fyrir hálfum mánuði síðan.