140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[12:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Ásbirni Óttarssyni að það er alvarlegt þegar fólk hefur verið atvinnulaust um lengri tíma og mikilvægt að það fái tækifæri til að komast í vinnu eða nám af einhverjum toga svo að það dagi ekki einhvern veginn uppi utan vinnumarkaðar.

En það er ekki sama hvernig hlutirnir eru orðaðir. Það er ekki svo að verið sé að skerða réttinn til atvinnuleysistrygginga. Í raun er verið að auka hann en með ákveðnum takmörkunum. Það er alveg rétt að þetta fólk mun fara yfir til sveitarfélaganna og sveitarfélögin eru í vandræðum með hvernig þau eiga að taka á þessu. Þau hafa líka bent á að þau hafa framfærsluskyldu samkvæmt lögum. Grunnframfærsluskyldan er hjá sveitarfélögunum og þau hafa ekki leyfi til að skilyrða stuðninginn við ákveðna virkni.

Nú stöndum við í íslensku samfélagi frammi fyrir dálítið nýjum aðstæðum. Hér er fjöldi fólks sem hefur verið utan vinnumarkaðar í hátt á fjórða ár sem þarf að aðstoða með einhverjum hætti ef mögulegt er. Spurningin er hvort sveitarfélögin eigi ekki að fá rýmri heimildir til að skilyrða aðstoðina. Ég tel þetta þó mjög viðkvæma umræðu því framfærsluskylda sveitarfélaga á sér rætur langt aftur í tímann, næstum allt frá landnámi eða kannski ekki alveg, (Gripið fram í.) í framfærsluskyldu hreppanna og þetta er gríðarlega mikilvægur þáttur í öryggisneti samfélagsins. En við þurfum að kljást við það, ekki bara í fjárlaganefnd heldur í öðrum nefndum þingsins sem og á vettvangi sveitarfélaga, hvernig við getum tryggt að ungt fólk til dæmis sem er ekki komið með framhaldsmenntun og hefur ekki komist inn á vinnumarkað fái tækifæri til að verða fullgildir meðlimir í íslensku samfélagi.