140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[14:54]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég er þeirrar skoðunar að fjárlaganefnd hafi valdið ágætlega því hlutverki sem henni er ætlað að sinna hverju sinni — þó vil ég setja þann fyrirvara á, þ.e. miðað við þær aðstæður sem henni er skapaðar til að vinna sína vinnu. Það er alveg ljóst að skipulagið á vinnunni hefur ekki verið gott og mætti vera betra. Ég nefni bara dæmi sem nefndin var sett í um síðustu helgi gagnvart þeim tillögum sem við vorum að vinna með þá. Það var ekki góður bragur á því og skapaðist af ýmsum ástæðum sem ég tel óþarft að fjölyrða um eða velta mér upp úr. Það er liðið og búið og við eigum að læra af þeim mistökum sem þar voru gerð.

Ég tel að við verðum að gefa þessu rýmri tíma. Við eigum að eiga þess kost að fara miklu dýpra inn í þessa hluti en við höfum verið að gera, bundin við smáatriði. Ég tek hins vegar ekki alveg heils hugar undir það með hv. formanni fjárlaganefndar að allar tillögur sem þingið er að fá frá framkvæmdarvaldinu (Forseti hringir.) séu djúphugsaðar, vel útfærðar og til góðs fallnar. Ég tel þvert á móti (Forseti hringir.) margar þeirra afar slæmar.